Hefnd MDE?

Íslenska ríkið tapaði enn einu sinni í Strassborg í gær. Mannréttindadómstóll Evrópu dæmdi ríkið brotlegt gegn ákvæðum mannréttindasáttmálans um réttláta málsmeðferð. Hæstaréttardómarar sem dæmdu í hinum ýmsu hrunmálum reyndust eiga hlutabréf í hinum föllnu bönkum. Má því búast við enn fleiri ósigrum þar sem fleiri sambærileg mál bíða meðferðar MDE. Nýlega hélt Hæstiréttur upp á aldarafmæli sitt með kaffisamsæti í Þjóðleikhúsinu. Þar voru fluttar nokkrar ræður en ein þeirra vakti sérstaka athygli. Þar var kominn umdeildur danskur lagaprófessor sem fannst samkoman prýðilegt tækifæri til að gagnrýna MDE harðlega.

F+M

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, má eiga það að hún er kona hinna frumlegu hugmynda. Í útvarpsviðtali í gær lagði hún til að þeir Íslendingar sem komi heim frá svæðum þar sem Covid-19 veiran geisar yrðu sendir í sóttkví í Egilshöll. Þá ætti að loka landinu á meðan faraldurinn geisar. Nú hljóta Miðflokksmenn að naga sig í handarbökin yfir því að hafa ekki verið fyrri til að hoppa á þennan vagn. Draumurinn um einangrun Íslands er innan seilingar og sameining flokkanna tveggja rökrétt næsta skref.