Hannes og Illugi sammála

Bandaríski þjóðgarðsvörðurinn Roy Sullivan fékk nafn sitt ritað í heimsmetabók Guinness fyrir að hafa orðið fyrir eldingu sjö sinnum á ævinni. Fyrst árið 1942 og síðast árið 1977. Líkurnar á að verða fyrir eldingu eru 1 á móti 280 milljónum. Líkurnar á að verða sjö sinnum fyrir eldingu eru 4,15 á móti 100.000.000.000.000.000.000.000.000.000.000. Enn ólíklegra er að Hannes Hólmsteinn Gissurarson og Illugi Jökulsson verði sammála um nokkurn hlut. En það gerðist nú samt í gær þegar Íslandsheimsókn Mike Pence bar á góma. Vildu þeir báðir meina að með fjarveru sinni væri Katrín Jakobsdóttir ekki að koma fram sem forsætisráðherra landsins heldur léti hagsmuni sína sem formaður VG ráða ferðinni.

Önnur öld

Margir, eða nánast allir, furða sig á hugmyndum Bandaríkjaforseta um að kaupa Grænland. Sveinn Óskar Sigurðsson, oddviti Miðflokksins í Mosfellsbæ, er á öðru máli og segir það hræsni í Dönum að furða sig á þessu. Rifjar hann upp að Danir hafi selt Bandaríkjunum Vestur-Indíur í byrjun 20. aldar og hafi sjálfir keypt eyjuna St. Croix af Frökkum á 18. öld. Því ættu Danir ekkert að kippa sér upp við svona tilboð. Svo segja sumir að Miðflokksmenn búi á einhverri annarri öld en við hin.