Hafnarfjörður logar

Hafnarfjörðurinn logar nú af reiði. Í kaffisamsætum er um lítið annað talað en vondu bæjarstjórnina sem ætlar að stúta höfninni. Setja stóra landfyllingu fyrir framan kirkjuna og planta þar skýjakljúfum. Eða álveri. Eða kjarnorkuveri. Rósa bæjarstjóri og Ágúst Bjarni, eini Framsóknarmaðurinn í bænum, hlaupa um allar koppagrundir með slökkvitækið á lofti. „Djók! Við ætluðum aldrei að gera þetta. Þið áttuð aldrei að sjá þetta!“ Hafnfirðingar eru efins, enda illa brenndir af stórframkvæmdum við hafnarsvæðið. Blokkalengjan við Norðurbakkann hefur gjörbreytt ásýnd svæðisins og á örskotsstundu hefur ferlíki Hafrannsóknastofnunar risið í hinum enda þess.

Gott djobb?

„Er það gott djobb?“ spurði Nóbelskáldið. Sennilega spyrja allir sig að þessu á einhverjum punkti á lífsleiðinni. Líka Kristín Linda Árnadóttir, nýráðinn aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar, en hún hefur verið forstjóri Umhverfisstofnunar frá 2008. „Er aðstoðarforstjóri betra djobb en forstjóri?“ Þetta segir mest um stöðu umhverfismála á Íslandi því stofnanirnar tvær gætu ekki verið ólíkari. Umhverfismálin eru í neðri deildunum. Að vera aðstoðarknattspyrnustjóri Liverpool er betra en að vera knattspyrnustjóri Tranmere.