Hættulegt svæði

Íslendingar hafa í gegnum tíðina tekið við pólitískum flóttamönnum og veitt hæli. Sjaldgæfara er að það sé á milli hreppa innanlands. Komin er upp sú staða að Guðmundur Gunnarsson, fyrrverandi bæjarstjóri Ísafjarðar, sér sér ekki vært í bænum. Hann segir bæjarstjórn beita fantaskap og dreifa rógburði. Finnst Guðmundi og fjölskyldu hans þau nú ekki velkomin í bænum, þau ætli að flytja burt og ekki koma til baka. Ljóst er að mikið hefur gengið á. Vakna því upp spurningar um hvort ekki þurfi að skilgreina Ísafjörð sem hættulegt svæði og grandskoða hvað stendur í Dyflinnarreglugerðinni um svona mál.

Meira af Vestfjörðum

Hrós dagsins fær Bæjarins besta fyrir að sinna því vel að afla og birta kjördæmakannanir. Ritstjórinn, Kristinn H. Gunnarsson, er enginn aukvisi í pólitík og þekkir innra starf flestra stjórnmálaflokka upp á hár enda hefur hann verið í þeim flestum. Hann veit að kjördæma­kannanir segja í raun mun meiri sögu en landskannanir, og aðeins með því að reikna þær saman er hægt að fá góða mynd af heimtum flokkanna í þingsætum talið. Stjórnmálanördar landsins ættu því að koma bb.is inn í daglegan netrúnt sinn.