Gúndi á Bessastaði?

Forsetakosningar fara fram á næsta ári og erfitt er að sjá að nokkur eigi möguleika á að velta Guðna Th. Jóhannessyni úr sessi. Um áratuga skeið þótti það ekki við hæfi að bjóða sig fram gegn sitjandi forseta en breyting hefur orðið á. Á föstudag skoraði varaformaður Íslensku þjóðfylkingarinnar á Guðmund Franklín Jónsson, hótelstjóra í Danmörku og sérlegan utanríkismála gúru Útvarps Sögu, til að bjóða sig fram. Í kjölfarið stofnaði Guðmundur „læk-síðu“ á Facebook sem vekur grunsemdir um að kallinu verði svarað enda áður sýnt embættinu áhuga.

Píratar í fortíðinni

Píratar eru flokkur sem státar sig af þekkingu á gangverki internetsins. Ungt fólk sem lifir og þrífst í hinum stafræna heimi. En þegar heimasíða flokksins er skoðuð mætti halda að maður hefði óvart rambað inn á vefsafn Háskóla Íslands. Þar er allt að finna um frambjóðendur og stefnumálin frá árinu 2017. Fyrir áhugamenn um stjórnmálasögu er þetta prýðileg upprifjun um löngu horfna þingmenn eins og Einar Brynjólfsson og Evu Pandóru Baldursdóttur. Einnig er skemmtilegt að rifja upp tveggja ára gömul skuggafjárlög. En fyrir tölvunördaflokkinn sjálfan er þetta í besta falli pínlegt.