GTA Saga

Samkvæmt heimsfréttaritara Útvarps Sögu er Svíþjóð orðin að einhvers konar Mógadisjú norðursins þar sem skotárásir, sprengingar, hnífsstungur og nauðganir séu svo algengar að íbúar upplifi að þeir búi í Stalíngrad. Svíþjóð er sannkallað helvíti á jörð. Það er ýmislegt, reyndar allt, vafasamt við þessar fullyrðingar. Á vef útvarpsstöðvarinnar góðu má líta mynd af lögreglumönnum við skyldustörf í tengslum við þessa umfjöllun. Þegar nánar er að gáð má sjá að myndin er í raun skjáskot úr tölvuleiknum GTA 5. Það segir allt sem segja þarf.

Í besta falli óábyrgt

Stjórnmálamenn eru komnir á hálan ís þegar þeir hlaupa til og koma með fullyrðingar um einstök mál þegar aðeins önnur hlið málsins hefur komið fram. Lögreglan er í þeirri stöðu að geta ekki tjáð sig um einstök mál. Það er því mjög hæpið hjá Dóru Björt Guðjónsdóttur, oddvita Pírata í Reykjavík, að nota stöðu sína sem formaður mannréttindaráðs borgarinnar til að velta upp spurningum um starfshætti lögreglu í tengslum við handtöku í Gleðigöngunni nýverið. Er það í besta falli óábyrgt og í versta falli rakinn popúlismi að setja lögregluna í klemmu til að skora pólitísk stig.