Gleymdu öllu

Öllu má snúa á hvolf. Þingmenn Miðflokksins, loks með tíu í mætingu, róa öllum árum að því að koma orkupakkanum í hendur embættismanna í Brussel til frekari skoðunar. Það, eftir að hafa varið lunganum úr sínum pólítíska ferli í að tortryggja þessa sömu embættismenn og raunar útlönd almennt; með sérstaka áherslu á Brussel. Samtímis leggur formaður Evrópuflokksins Viðreisnar áherslu á að málið verði til lykta leitt með atkvæðagreiðslu á hinu alíslenska Alþingi. Gleymdu öllu sem þú hélst að þú vissir um íslensk stjórnmál.

Ný nálgun

Útlit er fyrir að Brexitflokkur Nigels Farage verði stærstur á Evrópuþinginu öllu eftir komandi kosningar. Það veldur frjálslyndu fólki sem aðhyllist alþjóðasamstarf áhyggjum. Það gera vítaverð ummæli samflokksmanna um þolendur kynferðisofbeldis, innflytjendur, hinsegin fólk og fleiri hópa líka. Það hefur þó ekki reynst árangursríkt að úthrópa popúlista sem þessa. Ekki heldur að hella mjólkurhristingi yfir Farage eins og gerðist á þriðjudag. Slíkt er til þess fallið að herða afstöðuna eða vekja samúð með mjólkurhristingsblautum. Það þarf að taka uppgangi popúlisma alvarlega. Treysta á rökræður.