Gamlar fréttir

Í liðinni viku voru fluttar fréttir af því að norski bankinn DNB hefði sagt upp viðskiptum við Samherja vegna Namibíumálsins. Það teljast tíðindi að banki segi viðskiptum upp af siðferðilegum ástæðum.

Viðbrögð forstjóra Samherja voru hins vegar að þetta væri engin frétt. Í besta falli gömul. Þetta hefði legið fyrir lengi. Samherji hefði sjálfur sagt upp viðskiptunum við DNB um áramót! Auk þess hefði aðeins verið um innlánsviðskipti að ræða.

Þegar sá sem hér heldur á penna var á sínum sokkabandsárum fékk hann ráðleggingu frá sér eldri og reyndari á þann veg að ef til þess horfði að gagnaðili í sambandi vildi ljúka því, væri lykilatriði að vera fyrri til. Það er greinilegt að Samherjamenn hafa fengið sömu ráð.

Engar fréttir

Þó forstjóri Samherja hafi vitað af uppsögn bankans í einhvern tíma, en ekki aðrir, þá er það samt frétt. Það er frétt að eitt stærsta útgerðarfélag á norðurhveli jarðar sé beðið um að taka saman föggur sínar og fara úr viðskiptum, jafnvel þótt um innlánsviðskipti hafi aðeins verið að ræða.

Í þessu sambandi má líka velta fyrir sér hvor sagan sé trúverðugri, stórútgerðarinnar eða bankans.