Game-changer

Læknar brýna nú hnífa og rakvélar og raka af sér allt skegg í þágu sóttvarna. Einn af þeim sem rúði sig var Hjalti Már Björnsson á bráðadeild Landspítalans. En hann er einna þekktastur fyrir það eitt að vera með skegg. „Þetta eru viðbrigði,“ sagði Hjalti og bar sig vel, ekki væri um stóra fórn að ræða. Hjá CDC, bandaríska sóttvarnaeftirlitinu, er listi yfir skegg sem hindra loftþéttingu veiruheldra gríma. En þetta er svokallaður „game-changer“ fyrir skeggjaða karlmenn sem héldu að þeir væru óhultir með grímu. Í lagi er að vera með yfirvaraskegg álík þeim á Zorró, Adolf Hitler og Hercule Poirot. En alskegg og yfirvaraskegg eins og á Salvador Dalí, Frank Zappa og Heiner Brand, virka ekki.

Meira af læknum

Hinn skeleggi þingmaður og læknir, Ólafur Þór Gunnarsson, tók að sér að kenna þingheimi að maka hendur sínar með spritti eins og heilbrigðisyfirvöld mæla með að fólk geri. Tók sýnikennslan tólf sekúndur og fylgdust þingmenn vel með. Ekki er víst að allir hafi meðtekið kennsluna og verður hún því endurtekin tvisvar sinnum til viðbótar. Næst á dagskrá er að kenna þingmönnum tvisvar sinnum töfluna, íslensku mánaðaheitin og muninn á hægri og vinstri.