Fyndin uppgötvun

Fyndin er sú uppgötvun að verkalýðshreyfingin sé orðin pólitísk. Eins og að hún hafi aldrei verið það áður. Alþýðuflokkurinn var stofnaður sem stjórnmálaarmur Alþýðusambands Íslands og rann síðan í Samfylkinguna. Vinstri flokkarnir hafa ávallt barist um völd innan verkalýðshreyfingarinnar. Hannibal Valdimarsson var forseti ASÍ lengi. Gvendur Jaki, sem minnst er sem Jehóvah verkalýðsbaráttu, var bullandi pólitískur og sat á þingi fyrir Alþýðubandalagið. Ögmundur Jónasson, var formaður BSRB uns hann varð ráðherra.

Frekari uppgötvanir

Það er líka fyndið að fólk átti sig ekki á að þeir sem eru hinum megin borðs eru einnig bullandi pólitískir og hafa alltaf verið. Einar Oddur Kristjánsson, formaður gamla VSÍ, var þingmaður Sjálfstæðisflokks. Vilhjálmur Egilsson var framkvæmdastjóri SA sem og Þorsteinn Víglundsson í Viðreisn. Hægri menn sitja ávallt þeim megin borðs, eins og vinstri menn hinum megin. Þeir þrír, Einar Oddur, Gvendur og Ögmundur komu að þjóðarsáttinni, sem margir líta til sem ópólitísks fyrirbæris, en var það ekki. Hvort æskilegt sé að pólitíkusar komi að kjaramálum, skal ósagt, en svo hefur það alltaf verið og verður sennilega alltaf.