Framsókn, flokkur djammara

Staða Framsóknar í könnunum undanfarið knýr flokkinn til að leita á ný mið. Sigurður Ingi greindi frá því að Uber gæti verið á leið til landsins. Þetta er bráðsnjallt því að eini hópurinn sem er á móti Uber eru leigubílstjórar, og þeir kjósa allir Miðflokkinn. Þeir sem gleðjast mest eru djammarar, sem hafa um áraraðir mátt bíða klukkutímum saman í leigubílaröðinni, illa klæddir í nístingskulda. Þegar þeir loksins fá bíl þurfa þeir að punga út 6 þúsund kalli til að komast suður í Hafnarfjörð eða 8 þúsund upp í Mosó. Djammarar munu muna eftir Sigurði Inga og Framsókn næst þegar þeir ganga inn í kjörklefann.

Fréttir af frímúrurum

Nýr stórmeistari Frímúrarareglunnar var kynntur í gær en það er Kristján Þórðarson augnlæknir. Hann tekur við stöðunni af Vali Valssyni sem hefur setið síðan 2007. Undanfarið hafa Frímúrarar leiðrétt þann misskilning sem ríkir um að reglan sé leyndarklúbbur auðmanna sem stýri samfélaginu með vélabrögðum. Þetta sé karlaklúbbur sem snúist um góðgerðarmál og náungakærleika. Innsetning Kristjáns mun fara fram í Frímúrarahúsinu við Bríetartún þann 26. október og í kjölfarið verður veislustúka þar sem geit verður fórnað guðinum Baal.