Fordómalaust

Ekki verður með nokkru móti séð að aldursfordómar séu til staðar í Bandaríkjunum ef marka má aldur frambjóðenda Demókrata til forsetaframboðs. Þeir sem uppi standa þegar allir aðrir eru hættir eru hátt á áttræðisaldri. Annar 77 ára og hinn 78 ára. Þeir eru um það bil tíu árum eldri en almennt er miðað við að menn hætti þátttöku á vinnumarkaði hér heima. Þetta er til fyrirmyndar hjá Demókrötum. Sitjandi forseti er heldur ekki neitt unglamb. Trump verður 74 ára þegar kosningar fara fram vestur þar. Er þetta ekki okkur einhvers konar umhugsunarefni?

Má nú sem ekki mátti

Sérkennilegur hringlandi varð um helgina eftir að Kári Stefánsson ákvað að bjóða fram aðstoð Íslenskrar erfðagreiningar við veiruvarnir. Vísindasiðanefnd og persónuvernd töldu þá að þetta þyrfti nú að skoða sérstaklega og ef þetta teldist vísindarannsókn yrði að fá leyfi fyrir henni. Kári var ekki hrifinn af því og flautaði aðstoðina af. Í gærmorgun föttuðu svo nefndirnar að ekki þyrfti leyfi og þetta væri allt í lagi. Hvað gerðist í millitíðinni er óljóst nema ef vera skyldi að sólin skein í gær og kannski hefur það hjálpað nefndunum að sjá til lands.