Enn einn stólaleikurinn

Það er kominn annar stólaleikur í gang, nú er það næsti útvarpsstjóri. Það er ekki von á góðu enda Framsóknarmenn ekki beinlínis þekktir fyrir að stuðla að verðleikasamfélagi. Strax er byrjað að nefna einhver nöfn. Svanhildur Hólm Valsdóttir gæti gert góða hluti, en það er spurning hvort stjórnarseta í ríkisbatteríi sem klúðraðist hefur eitthvað að segja. Þá er Skúli Mogensen laus þessa dagana. Þá gæti Eygló Harðardóttir verið valkostur enda vinsælt að ráða einhvern með enga reynslu af fjölmiðlum í verkefni tengt fjölmiðlum. Svo er það Karl Garðarsson, hann er með fína reynslu og réttu tengslin, þeir sem vilja sjá hvernig hann stendur sig sem stjórnandi fjölmiðils geta kíkt á dv.is.

Hjálparhöndin

Útlendingastofnun er búin að reita þjóðina enn einu sinni til reiði. Nú vegna brottvísunar konu sem gengin er átta mánuði á leið. Sagði í tilkynningu til fjölmiðla að til væri vottorð frá lækni um að konan væri ferðafær. Vottorðið leit svo dagsins ljós en þar stendur: „Hún er slæm af stoðkerfisverkjum og ætti erfitt með langt flug.“ Rifjast þá upp orð dómsmálaráðherra sem sagðist vonast til að heimurinn rétti hjálparhönd ef allt færi illa á Íslandi. Einmitt.