Einherji á toppinn?

Greint var frá því á dögunum að Sir Jim Ratcliffe ætlaði sér ekki að kaupa lið í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Lengi var sá orðrómur á kreiki að hann hefði hug á að kaupa Chelsea. Ratcliffe er ríkasti maður Bretlands. Meðal eigna hans eru ýmsar jarðir á Norðausturlandi og hefur í kjölfarið skapast neikvæð umræða um jarðakaup útlendinga. Gullið tækifæri blasir hins vegar við Ratcliffe til að bæta ímynd sína. Hann gæti slegið tvær flugur í einu höggi með því að fjárfesta örlítið brot fjár síns í knattspyrnuliði Einherja á Vopnafirði. Þannig gæfi hann til baka til samfélagsins og myndi fagna Íslandsmeistaratitli innan nokkurra ára.

Ekkert messuvín

Drög að frumvarpi dómsmálaráðherra um vefverslun með áfengi hafa verið birt. Er þetta enn einn liður í nútímavæðingu á sölu þessa stórhættulega varnings. Tillögurnar ganga út á að heimilt verði að afhenda vöruna frá klukkan átta á morgnana og til níu á kvöldin. Það er framför miðað við opnunartíma Vínbúðanna. Þó má ekki afhenda áfengið á helgidögum þjóðkirkjunnar og fleiri opinberum frídögum. Klerkar landsins verða því enn að bíða þess að geta bjargað sér með eina messuvín á sunnudagsmorgni.