Frá degi til dags

Frá degi til dags: Deilt við dómarana

Deilt við dómarana

Mannréttindadómstóll Evrópu hefði allt eins reynt að stökkva vatni á gæs í gærmorgun eins og að reyna að vanda um við dómsmálaráðherra vegna skipunar dómara við Landsrétt. Sigríður Andersen stendur keik sem aldrei fyrr og flokksbróðir hennar, Birgir Ármannsson, skilur lítið í þeim þarna í Strassborg sem virðast ekki átta sig á að engar forsendur hafa breyst síðan Sigríður stóð af sér vantrauststillögu stjórnarandstöðunnar í fyrra. Landsréttur virðist þó óttast einhvers konar forsendubrest og skömmu eftir greiningu Birgis var skellt í lás á þeim bænum og engir dómar verða kveðnir upp í Kópavogi á næstu dögum.

Forheimskandi hollusta

Dómsmálaráðherra ætlar ekki að segja af sér vegna málsins þrátt fyrir kröfur andstæðinga um slíkt enda dyggilega studd til slímusetu af pólitískum samherjum og bandafólki. Blaðamaðurinn Jakob Bjarnar bendir á að sá hljómur í stuðningsliðinu gæti verið holur þegar hann leyfir sér á Facebook að fullyrða að þeir sem sjá ekki ástæðu fyrir Sigríði til að víkja núna „væru gersamlega froðufellandi ósammála sjálfum sér ef um væri að ræða flokkspólitískan andstæðing í sömu stöðu“. Niðurstaðan: „Flokkshollusta er ekki bara forheimskandi; hún er niðurlæging vitsmuna.“

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing
Auglýsing
Auglýsing