Bryssi og Rósaldo

Eitt helsta deilumál samtímans er hvor sé færari knattspyrnumaður, Messi eða Ronaldo. Skiptast menn í ósveigjanlegar fylkingar eftir því hvorn þeir styðja og telja mörk og titla máli sínu til stuðnings. Báðir eru þeir meðal fremstu tuðrusparkara sögunnar, ef ekki þeir allra bestu, og ómögulegt er að segja hvor sé betri. Messi er samt betri.

Nú er komið upp nýtt álitaefni. Hvor hafi verið betri, Brynjar Níelsson eða Rósa Björk Brynjólfsdóttir. Þau hreykja sér mjög af fortíð sinni. En þegar litið er á tölfræðina á vef KSÍ er erfitt að segja hvort hafi verið betra. Brynjar spilaði einn U-19 landsleik og engan í meistaraflokki með Val. Rósa lék sex leiki með U-16 ára landsliðinu og einn leik í meistaraflokki. Það var heimavallartap gegn KR. Líklega var Rósa samt betri.

Meira af Brynjari

Þingforðun (því ekki má segja skróp lengur) Brynjars við þingsetningu vakti mikla athygli. Spunnust um það kenningar að hann væri að senda flokksforystunni skilaboð vegna þess að gengið hefði verið fram hjá honum við ráðherraskipan.

Hið rétta er að Brynjar þurfti að leita sér læknishjálpar á Landspítalanum og því hægt að setja álhattana ofan í skúffu. Brynjar er samt reiður.