Brýna sverðin

Innan úr stjórnkerfinu berast nú þau tíðindi að hagsmunagæslumenn sjókvíaeldisfyrirtækjanna vilji láta sverfa til stáls gegn Sigurði Guðjónssyni, forstjóra Hafrannsóknastofnunar. Í því ljósi má skoða hugmyndir Teits Björns Einarssonar, varaþingmanns Sjálfstæðisflokksins, um að gerð verði stjórnsýsluúttekt á stofnuninni. Sigurður vill að ekki verði farið of geyst í uppbyggingu á laxeldi í sjókvíum, vegna mögulegra skaðlegra áhrifa á villta laxastofna og nytjastofna í hafinu. Þykir sjókvíaeldismönnum hann þar vera óþægur ljár í þúfu og vilja koma í hans stað manni sem er tilbúinn að greiða götu sjókvíaeldisins.

Kyssa hringinn

Það hefur gefist stjórnmálamönnum vel að kyssa hring norsku eldisrisanna, sem eiga sjókvíaeldisfyrirtækin hér við land. Einar K. Guðfinnsson fór til dæmis beint úr stól forseta Alþingis í vellaunað starf sem stjórnarformaður Landssambands fiskeldisstöðva og Daníel Jakobsson, efsti maður Sjálfstæðisflokksins á Ísafirði, réð sig til starfa hjá Norway Roayl Salmon. Starfið fékk hann í gegnum dótturfélag fyrirtækisins, Arctic Fish. Teitur Björn veit að norsku fyrirtækin líta á árásir hans á Hafró með velþóknun. Það gæti endað einn daginn í þægilegu starfi.