Brattur hrakhóll

Vigdís Hauksdóttir er í eigin sérflokki hvað varðar úthald, einurð og festu í pólitíska hringnum. Blýþung höggin lætur hún dynja á andstæðingunum, oft af meira kappi en forsjá enda tekst henni jafnan að vanka þá með vindhöggunum einum. Höggþunginn minnir þannig helst á sjálfan Muhammad Ali sem dansaði eins og fiðrildi og stakk eins og geitungur. Þótt Vigdísi verði oft fótaskortur á tungunni og sé ekki alltaf með réttan hrakhól á hraðbergi tekst henni þó að bíta eins og lúsmý þannig að þeir sem lenda í henni engjast dögum saman í sturluðum andlegum kláða.

Lose me tapa ekki

Vigdís varð undir í orrustu langdregins stríðs við vindmyllur borgarmeirihlutans í gær þegar kerfið og kjörnefnd sýslumanns vísaði kæru hennar með kröfu um ógildingu borgarstjórnarkosninganna frá. Vigdís veifaði þó ekki hvítu flaggi heldur tilkynnti að lýðræðið í landinu hafi orðið fyrir gríðarlegu áfalli þegar hún var þarna felld með tæknilegum og heldur ómerkilegum hælkrók. Óbuguð lét hún kné fylgja kviði á Facebook þar sem hún komst að þeirri niðurstöðu að kosningasvindl sé heimilt svo lengi sem það kemst ekki upp fyrr en eftir sjö daga. Guðs Mildison að borgarstjóri er læknir.