Blátt bann

Þjóðernishyggjan virðist hafa heltekið fótboltaæsta Tyrki. Allt sem Íslendingar gera er ómögulegt. Við megum ekki stoppa landslið þeirra á flugvellinum, róta í töskum né hrista vegabréf þeirra. Svo má alls ekki leyfa Belga að veifa framan í þá uppþvottabursta. Utanríkisráðherrar landanna ræddu saman í gær til að bera klæði á vopnin. Fyrrverandi utanríkisráðherra, Össur Skarphéðinsson, vildi ganga lengra. Á Fésbók hvatti hann landsmenn til að mæta með uppþvottabursta á völlinn. KSÍ lagði hins vegar blátt bann við slíku kynþáttaníði og hirti þá af sniðugum áhangendum.

Hringt í Jens

Íslendingar tóku mun betur á móti Jens Stoltenberg, fram­kvæmdastjóra NATO, en Tyrkjum. Fékk hann að ferðast hindrunarlaust um götur borgarinnar í lögreglufylgd. Eitt það helsta sem hrjáir íslenska stjórnmála- og umræðuhefð er tregðan til að setja sig í spor annarra. Því getur það ekki verið auðvelt fyrir forsætisráðherra að dekra við samtök sem hún er beinlínis á móti. Hún hefur sagt NATO hluta af málamiðlun ríkisstjórnarflokkanna. Jens og Katrín hafa vissulega hist áður, en í þetta skiptið var það Katrín sem bauð. Það getur ekki hafa verið auðvelt að hringja í Jens.