Barnaskapur …

Ragnar Önundarson er í fremstu víglínu eldri borgara á Facebook þar sem hann sér nú ofsjónum yfir skipan Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur í embætti dómsmálaráðherra og spyr hvort hún eigi ekki frekar heima í barnamálaráðuneytinu. Þarna lítur hann að vísu fram hjá því að Áslaug Arna er á svipuðum aldri og Ragnar var sjálfur þegar honum var treyst til að stýra heilum fullorðinsbanka. Orðaval heldri borgarans virðulega styður hið fornkveðna um að tvisvar verði gamall maður barn þegar hann segir Sjálfstæðisflokkinn hafa verið einstaklega „óheppinn í kvennamálum“ og kallar varaformann hans og fráfarandi ritara „puntudúkkur“.

… eða elliglöp?

Ragnar vill að Áslaug Arna og Þórdís Kolbrún sýni þolinmæði á meðan þær afli sér starfs- og lífsreynslu sem geri þær verðugar til setu á ráðherrastólum. Reynsla er þó eitt og þroski annað og ætla má að þessar tvær konur hafi nýtt árin vel og spyrja má hvað það nákvæmlega er sem Ragnar hefur öðlast umfram þær á sínum langa ferli? Meinfýsni, yfirgangur og dónaskapur eru ýmist meðfæddir eða áunnir eiginleikar og vonandi hafa „puntudúkkurnar“ þroska til þess að afþakka þessa úttekt úr reynslubanka Ragnars Önundarsonar.