Bára í búri

Erla Hlynsdóttir, framkvæmdastjóri Pírata, gaf tóninn í nýjum hlaðvarpsþáttum Pírata sem þau kalla PírApinn en þar er hugmyndin að hver sem vill og telur sig geta sýni hvað í honum býr á eigin forsendum. Erla reið á vaðið með viðtali við hljóðritarann Báru Halldórsdóttur og í raun ekki heiglum hent að fylgja í kjölfarið þar sem Erla var einhver skarpasti og djarfasti blaðamaður landsins áður en hún tók að sér að halda utan um Píratana. Erla fékk það meðal annars upp úr Báru að í sumar ætli hún að bjóða upp á gjörning þar sem hún ætlar að athafna sig í búri til þess að sýna fram á þrönga stöðu öryrkja. Áhugaverð hugmynd en líklega hefðu Klaustursþingmennirnir sem Bára hljóðritaði kosið að hún hefði læst sig inni í búri miklu fyrr.

Endurfundir

Erla og Bára eiga sér merkilega sögu þegar horft er til baka eftir Klaustursfokkið en Erla tók einmitt fyrsta viðtalið við Báru um veikindi hennar í Fréttatímanum 2013. Þá höguðu framsýnar örlaganornirnar því þannig að Bára prýddi forsíðu blaðsins ásamt Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, æðsta kardínálanum af Klaustri, sem þá var valinn maður ársins. Síðan liðu nokkur ár og Bára var víða valin manneskja ársins 2018.