(And)kapítalisminn

Afstaða Hatara gegn kapítalismanum er nokkuð vel þekkt hér á landi. „Þannig hyggjumst við knésetja kapítalið en selja ef til vill nokkra boli í leiðinni,“ sagði Matthías Tryggvi Haraldsson Hataraliði til dæmis við Fréttablaðið í febrúar. Þegar litið er yfir auglýsingar íslenskra fyrirtækja undanfarna daga má hins vegar sjá skýrt og greinilega að kapítal­isminn lætur sér ekki segjast. Þannig hefur mátt sjá fjölmörg fyrirtæki skreyta auglýsingar sínar með BDSM-varningi, vísa í nafn lagsins og sveitarinnar og svo framvegis. „Hrísið mun sigra,“ sagði til að mynda í auglýsingu frá Freyju þar sem sjá mátti gaddaskreyttan sælgætispoka.

Rétti tíminn

Mikilvægt er að tímasetja fréttatilkynningar vel svo að þær veki sem mesta athygli. Til að mynda ætti fæstum að detta í hug að senda út tilkynningu þegar Eurovision hófst fyrir korteri. En það er nákvæmlega það sem Orkan okkar gerði í gærkvöldi þegar hún sendi út tilkynningu um undirskriftasöfnun gegn þriðja orkupakkanum. Annað sem vafðist fyrir Orkufólki var munurinn á tæplega og rúmlega. Þar voru 13.480 undirskriftir sagðar tæplega 14.000. Litla stærðfræðikunnáttu þarf að hafa til að sjá að fjöldinn er nær 13.000.