And-Nostradamus

Það er alltaf jafn yndislegt þegar menn gera ráð fyrir því að hugmyndir sem eru á lofti í vinahópi sínum megi yfirfæra á þjóðfélagið í heild. Meira að segja Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi áhrifamaður, datt í þessa gildru þegar hann spáði því að umferðarteppur myndu geta af sér ný framboð sem myndu uppskera ríkulega í næstu kosningum. Friðjón Friðjónsson almannatengill hitti naglann beint á höfuðið þegar hann kallar Styrmi „and-Nostradamus stjórnmálanna“. Bendir Stefán Pálsson sagnfræðingur réttilega á að Bílaframboðið yrði mögulega glataðra en Karlalistinn.

Beðið fyrir bakaríi

Aðdáendur brauðs halda niðri í sér andanum þessa dagana vegna viðskipta með Brauð & Co. Óttinn er raunverulegur því við vitum hvað getur gerst þegar stórir aðilar taka yfir nýstárlega og heimilislega matsölustaði. Excelkapítalistar eiga oft erfitt með að skilja hvað nákvæmlega gerir staðina sem þeir keyptu svona vinsæla og átta sig ekki alltaf á því að kúnnar taka alveg eftir því þegar skammtar minnka og meðalaldur starfsmanna fer undir tveggja stafa tölu. Við kveikjum því á kerti og biðjum fyrir því að Brauð & Co feti ekki á brautir þeirra óæðri bakaría sem stefna nú hvert af öðru í þrot.