Áhrif almannatenglanna

Líkt og þruma á blíðviðrisdegi tókst Ragnari Önundarsyni, aftur, að koma sér í kastljós fjölmiðla með tilgangslausum athugasemdum um Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, formann utanríkismálanefndar og ritara Sjálfstæðisflokksins. Í þetta skipti kallaði hann hana „sætasta krakkann“ sem sé aðeins á sínum stað vegna áhrifa almannatengla. Verður það að teljast ólíklegir sökudólgar þar sem Áslaug þurfti ekki á neinum tilfærslum til að ná öðru sæti í Reykjavík norður fyrir síðustu kosningar. Ef það er einhver sem þarf á áhrifum almannatengla að halda þá er það Ragnar sjálfur.

Margra mínútna verk

Ábyrgð eftirlitsaðila er mikil. Hlutverk þetta er iðulega útlistað í lögum. Helsta hlutverkið er að passa upp á að vita með hverjum þeir hafa eftirlit. Það getur tekið margar mínútur á viku þegar um er að ræða eitthvað jafn flókið og hræringar á fjölmiðlamarkaði. Nú er liðinn einn og hálfur mánuður frá því að DV skipti um ritstjóra en samt er sá gamli enn skráður á vef Fjölmiðlanefndar. Þegar vefur nefndarinnar er skoðaður má finna vísbendingar um lífsmark þar á bæ, en það snýst um eitthvað allt annað en eftirlit með fjölmiðlum.