Ævintýri Seðlocks Holmes

Það hafa verið sýndir mun verri þættir á RÚV en ævintýri innanhússspæjara Seðlabankans og rannsókn hans á meintum leka þar á bæ til RÚV árið 2012. Í vor hafði rannsókn Seðlock Holmes leitt í ljós að seðlabankastjórar hefðu ekki sent neina pósta á RÚV. Nú í september hafði Seðlock athugað pósthólf fyrrverandi framkvæmdastjóra og séð að síðasti pósturinn fyrir húsleit innihélt upplýsingar um það en ekkert sem benti til leka úr Seðlabankanum. Fylgjumst með í næsta þætti þegar Seðlock athugar hvort viðkomandi hafi tekið upp símann eftir að pósturinn barst.

Vissulega siðrof

Biskup Íslands lét taktlaus ummæli falla vegna nýs þjóðarpúls Gallup, þar em einungis þriðjungur þjóðarinnar bar traust til Þjóðkirkjunnar og 19 prósent voru ánægð með störf Agnesar. Vildi biskup helst kenna því um að börnin væru ekki lengur skyldug til að lesa biblíusögurnar í skólanum og notaði orðið siðrof. Það er vissulega rétt að siðrof hefur orðið sem leitt hefur til flótta úr kirkjunni. En siðrofið er innan kirkjunnar sjálfrar og sú blákalda staðreynd að klerkar hafa ítrekað orðið uppvísir að kynferðisbrotum gegn sóknarbörnum sínum.