100 ára meinsemd

Kerfiselítunni virðist sérlega ljúft að bjóða heim umdeildum fulltrúum gömlu herraþjóðarinnar er fagna skal merkingarþrungnum stóráföngum í ferðasögu Íslendinga frá helsi til frelsis. Alþingi reið á vaðið með því að fá Piu Kjærsgaard, forseta danska þingsins, til að tóna niður hátíðleika 100 ára fullveldisafmælisins og Hæstiréttur heggur nú í sama knérunn með Mads Bryde Andersen en Danirnir tveir eiga sameiginlegt að vera eðlislægt að stuða fólk almennt og særa sómakennd þess í leiðinni.

Einbeittur velsæmisbrotavilji

Risið hefur verið hærra á dómsvaldinu á Íslandi en nú er handhægt þykir að grípa til hliðstæðna í „réttarríkjum“ á borð við Pólland og Tyrkland. Vandséð, að það sé til þess fallið að efla traust almennings að hið fordæmisgefandi efsta dómstig, sem stóð vörð um kvótakerfið og ábyrgðarmenn Geirfinnsmálsins í áratugi, fagni aldarafmæli með því að fá annálaðan danskan andstæðing mannréttinda til þess að ávarpa æðstu fulltrúa íslenskrar valdastéttar í einkasamkvæmi og tala niður skjólið í Strassborg þangað sem íslenskir blaðamenn og aðrir þolendur dyntótts dómskerfisins hafa helst getað sótt réttarbót.