Við erum komin hingað aftur. Sóttvarnir, grímur, bil á milli fólks, fjarfundir og það sem skiptir öllu máli, að þvo sér oft og reglulega um hendurnar. Mæta svo í sýnatökuröðina við minnstu einkenni.Vírusinn er í þróun.

Afbrigðin frá alfa til lambda hafa þegar komið fram og næst verða það mý, ný og xí. Hvaða áhrif þau hafa, önnur en að kenna okkur betur gríska stafrófið, er óljóst. En það að „lifa með veirunni“ verður með hverjum degi nærtækara en að bíða eftir að hún hverfi.

Ef við erum heppin verður ómega kvefslen sem við hristum af okkur. Ef við erum óheppin verðum við næstu ár að herða og slaka, halda stóra mannfögnuði þegar glugginn opnast og geymslan verður óhugnanlega hrein.

Þróunin mun ekki stýrast af póli­tískri umræðu á Íslandi. Hún mun stýrast af þróun bóluefna og bólusetninga í fjölmennum ríkjum. Þar mun veiran stökkbreytast. Svo skiptir jú máli hversu dugleg við erum sjálf að gæta sóttvarna.

Til einhverra ára er óraunhæft að „loka landinu“ eins og kallað var eftir í byrjun. Delta, eins og fyrri afbrigði og þau næstu, dreifist með okkur sjálfum. Við gleymum sóttvörnunum á góðum stundum og áður en við vitum af hefur fólk smitast um allt land.

Af því að við vorum dugleg að ferðast um landið og faðma fólk. En ég er að norðan. Ég veit hvað það er sterkt í fólki að kenna utanbæjarfólki um.Við hentum grímum og spritti með athöfn snemmsumars. En þurfum nú skömmustuleg að draga sóttvarnirnar aftur fram. Frá alfa til ómega munum við vonandi að minnsta kosti læra að þvo okkur almennilega um hendurnar. n