Það er átakanlegt að hlusta á sögur foreldra í Fossvogsskóla um veikindi barna sinna. Mörg börn eru alvarlega veik. Þrátt fyrir endurbætur á skólanum upp á um hálfan milljarð króna virðist ekki hafa verið komið í veg fyrir þá myglu sem fannst í skólanum fyrir um ári síðan. Foreldrar eru í ömurlegri stöðu, þeir verða að senda börn sín í skólann þó þau viti að þar geti þau veikst. Lög um grunnskóla eru skýr, þar segir skv. 5. gr. grunnskólalaga: „Rekstur almennra grunnskóla er á ábyrgð og kostnað sveitarfélaga. Sveitarfélög bera ábyrgð á heildarskipan skólahalds í grunnskólum sveitarfélagsins, þróun einstakra skóla, húsnæði og búnaði grunnskóla, sérúrræðum grunnskóla, mati og eftirliti, öflun og miðlun upplýsinga og á framkvæmd grunnskólastarfs í sveitarfélaginu.“ Það er því skýrt að öll ábyrgð liggur hjá Reykjavíkurborg.

Foreldrar fá ekki svör

Foreldrar í Fossvogsskóla hafa síðan í haust verið að kalla eftir upplýsingum frá Reykjavíkurborg þegar börn þeirra hófu aftur nám í skólanum og byrjuðu að veikjast.

Þau vilja vita hvernig var staðið að úttektum á skólahúsnæðinu þegar Reykjavíkurborg tók aftur við því eftir endurbætur.

Var farið í sömu myglupróf og þegar myglan var mæld í skólanum fyrir ári síðan? Hvernig stendur á því að það er leki í nýju þaki? Var skoðað undir sökkla í heimilisfræðistofu? Þessum og fjölda annarra spurninga hafa foreldrar ekki fengið svör við þrátt fyrir að hafa ítrekað óskað eftir því.

Líka kennarar sem veikjast

Það eru ekki bara börn sem eru að veikjast í skólanum heldur einnig kennarar. Þannig að þetta ástand hefur áhrif á alla enda um heilsuspillandi húsnæði að ræða. Maður spyr sig hvort Reykjavíkurborg sé að skapa sér skaðabótaskyldu gagnvart þeim börnum og kennurum sem hafa verið látin vera í þessu heilsuspillandi rými.

Á vefsíðu Reykjavíkurborgar segir um skóla- og frístundaráð: „Gætir þess að leikskólar, grunnskólar, frístunda- og félagsmiðstöðvar og frístundaheimili á vegum borgarinnar búi við fullnægjandi húsnæði og að annar aðbúnaður sé fyrir hendi.“ Kennarar og börn búa ekki að fullnægjandi húsnæði í Fossvogsskóla, foreldrar hafa orðið að berjast fyrir því að húsnæðið sé rannsakað á viðunandi hátt.

Hver er því réttur þeirra sem hafa verið að veikjast? Þegar upp komst um mygluna og færa varð alla nemendur úr skólanum með tilheyrandi raski fyrir börn, starfsfólk og foreldra, hafði það þau áhrif á námsárangur barna og árangur í samræmdum prófum fór fram úr öllum væntingum.

Mygla og heilsufarsleg áhrif

Sú vitneskja að mygla hefur alvarleg áhrif á heilsufar okkar er sem betur fer tekin alvarlega.

Getur verið að hluti af þeim vanda sem er í skólakerfinu og lækkandi einkunnir ásamt fjölgandi greiningum geti verið út af því að húsnæðið sem börnin okkar eru í sé heilsuspillandi? Í það minnsta var árangur barna í Fossvogsskóla eftirtektarverður á samræmdu prófum þegar þau voru ekki lengur í gamla húsnæðinu þar sem fundist hafði mygla.

Getur verið að mygla eigi stærri þátt í líðan barnanna okkar heldur en við gerum okkur grein fyrir? Það er skýr lagaleg skylda okkar að bregðast við þegar upp koma mál líkt og í Fossvogsskóla og það er óskiljanlegt að foreldrar þurfi að vera í marga mánuði að hrópa á hjálp.

Ég tel ljóst að nú þegar þurfi að grípa til viðeigandi aðgerða.