Undanfarna daga hafa þúsundir Íslendinga lagt á sig þó nokkurt ferðalag til að verða vitni að endursköpun lands síns. Ekki er annað að sjá en að við gosstöðvarnar hafi þverskurður þjóðarinnar komið saman. Sumir splæsa í þyrlu, flestir fara gangandi eða hjólandi. Forvitnin spyr hvorki um stétt né stöðu. Ekkert er í heiminum eðlilegra eða fallegra en forvitni mannsins um náttúruna og náttúruöflin. Þeir eru í minnihluta sem niðurlægja sig með því að gagnrýna samborgara sína fyrir að leggja á sig langa gönguferð til að sjá náttúruöflin að verki, sjá landið sitt breytast og endurskapa sig. Vissulega fara sumir vanbúnir eða í trássi við reglur og fyrirmæli. Einn var allsber. En það er nú einu sinni eðli forvitninnar, að vera stundum upp á kant.

Forvitni er allra besti kostur hverrar manneskju. Forvitið fólk sýnir náunga sínum áhuga og umhyggju. Það er forvitna fólkið sem leiðir rannsóknir og vísindastarf í heiminum og þróar nýja tækni. Það er í fararbroddi í því björgunarstarfi sem stendur yfir vegna loftslagsbreytinga. Það leiðir nýjungar í læknisfræði og erfðafræði. Og forvitni er undirstaða listar og kímnigáfu.

Forvitnin mun vísa okkur veginn út úr heimsfaraldrinum. Ekki aðeins forvitni þeirra sem þróað hafa skimunartæki og bóluefni, heldur ekki síður forvitnin sem mun skapa þau störf og verðmæti sem við þurfum til að koma okkur aftur á beinu brautina efnahagslega.

Um þetta ríkir alger samstaða. Þegar hægra fólkið talar af andagift um einkaframtak, athafna- og viðskiptafrelsi, á það við hvað forvitnin getur gert sé henni sleppt lausri. Þegar vinstra fólkið talar um jöfn tækifæri allra til menntunar er það í rauninni að segja að forvitni allra sé jafnverðmæt.

Ríkisstjórnin segist hafa veitt meira fé til nýsköpunar en nokkur önnur ríkisstjórn í sögunni. Hún virðist hins vegar því miður ekki skipa sér í hóp forvitinna Íslendinga sem farið hafa að skoða gosið, heldur er hún meira eins og eldgosið sjálft sem spúir kvikunni út í loftið án þess að skeyta um hvar hún lendir eða í hvaða farvegi hraunfossarnir storkna.

Nú á að leggja niður Nýsköpunarmiðstöð Íslands öllum að óvörum og án þess að þverpólitískt samtal hafi átt sér stað um í hvaða farveg fyrrnefnt Íslandsmet í fjármögnun nýsköpunar eigi að fara. Þetta er ekki eina dæmið um tilviljanakennda stjórnsýslu. Enginn ræddi við forstöðumann Farsóttarhússins áður en ákveðið var að hýsa fólk í farsóttarhúsi ef það kemur frá rauðum löndum. Þúsundum leghálssýna var pakkað í geymslu af því að hætt var að skima fyrir leghálskrabbameini án þess að annað plan lægi fyrir um krabbameinsleit fyrir kvenfólk landsins.

Þessa stjórnlausu stjórnsýslu má sjá á myndum flestra atvinnu- og áhugaljósmyndara landsins sem lagt hafa leið sína í Geldingadali síðustu daga. Á nokkrum þeirra mynda sést einnig íslenska þjóðin sem heiðraði íslenska náttúrukrafta með nærveru sinni; bæði af ást á landinu og fjöreggi allra mannlegra samfélaga, forvitninni.