Fortíðarskvaldrið ómar þar sem klappstýrur afturhaldsins halda áfram að því er virðist endalausum svanasöng bílaborgarinnar í takt við dauðateygjur arfleifðar borgarstjórnartíðar Davíðs Oddssonar.

Sjaldan hefur með jafn skýrum hætti kristallast hugmyndafræðilegur ágreiningur meirihlutans og minnihlutans í borgarstjórn um hvort stefna beri til framtíðar með minni losun gróðurhúsalofttegunda, aukinni samkeppnishæfni og meira valfrelsi fyrir betri, skemmtilegri og manneskjulegri borg eða hvort grípa beri með sveittum krumlum fortíðar um visnandi svart/hvíta ímynd samfélags þar sem hugmyndin um einkabílinn sem helsta kennimerki sjálfstæðisins fær að hjakka áfram í sama subbulega bílfarinu.

Mikið hvað ég er ánægð með það að borgarbúar skyldu velja umhverfið, grósku og sjálfbæra og nútímalega framtíðarsýn fyrir fólk fyrst og fremst, þar sem líffræðilegur fjölbreytileiki, lýðheilsa og lifandi og opið samfélag fær að blómstra.

Við þá herramenn sem stoppa mig á förnum vegi, hvort sem það er í raunheimum eða á internetinu, og biðja mig um að „laga Laugaveginn“ og eru þar með að veita sína stuðningsyfirlýsingu við hina fyrrnefndu visnandi og fúnandi ímynd svo að bíllinn þeirra njóti áfram þeirra fullkomnu forréttinda sem hann og þeir hafa alltaf notið undir stjórn Sjálfstæðisflokksins vil ég segja þetta: Ég er að laga Laugaveginn. Með því að gera hann að göngugötu.