Fólkið hefur valið sér forseta. Eins og við var að búast var Guðni Th. Jóhannesson endurkjörinn til næstu fjögurra ára með miklum yfirburðum. Hann má vel við niðurstöðuna una en hún endurspeglar það mikla traust sem hann nýtur meðal þjóðarinnar. Í upphafi árs sögðust um 80 prósent ánægð með störf hans í könnun sem gerð var fyrir Fréttablaðið. Það var því ljóst allan tímann að það þyrfti mjög öflugan mótframbjóðanda til þess að kosningarnar yrðu spennandi. Sá mótframbjóðandi steig aldrei fram.

Þótt kosningabaráttan hafi kannski ekki snúist um einhver ákveðin málefni birtist þar grundvallarmunur á hugmyndum frambjóðenda um hlutverk forsetans. Ekki reyndist eftirspurn eftir forseta sem væri virkur á sviði stjórnmálanna og tæki sér þar frumkvæði. Hluti af því ferli sem nú stendur yfir um endurskoðun stjórnarskrárinnar var könnun á viðhorfi almennings. Þar voru 70 prósent þeirrar skoðunar að embætti forseta ætti að vera svipað og í núgildandi stjórnskipan.

Það er ekki þar með sagt að embætti forseta sé eða eigi að vera valdalaust. Þvert á móti. Forsetinn hefur umtalsverð völd sem hann getur beitt og á að beita krefjist aðstæður þess. Embættið hefur mótast í gegnum tíðina með þeim einstaklingum sem hafa gegnt því. Þá sögu þekkir núverandi forseti vel. Fyrri forsetar hafa verið mispólitískir í sínum gjörðum og málflutningi enda sumir þeirra haft pólitískan bakgrunn.

Að langmestu leyti hefur tekist að halda forsetaembættinu utan við dægurþras stjórnmálanna og einstaka stjórnmálaflokka. Í fyrstu almennu forsetakosningunum sem fram fóru 1952 sigraði Ásgeir Ásgeirsson undir kjörorðinu „Fólkið velur forsetann“. Þá studdu Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn, sem sátu í ríkisstjórn, annan frambjóðanda og beittu sér töluvert í kosningabaráttunni.

Sú skoðun var lengi ríkjandi á Íslandi að forsetaembættið væri nánast upp á punt og engin raunveruleg völd fælust í því. Konungi hefði einungis verið skipt út fyrir forseta í stjórnarskránni 1944. Þótt eitthvað sé til í því er þar um mikla einföldun að ræða. Fyrstu tveir forsetar lýðveldisins, sem báðir komu úr stjórnmálunum, beittu sér töluvert á bak við tjöldin og þá aðallega í tengslum við stjórnarmyndanir.

Það er ekki heldur hægt að líta fram hjá þeim tíðaranda sem stofnað var til lýðveldisins í. Þrjár mismunandi ríkisstjórnir sátu hér til dæmis árið 1942 og þegar lýðveldið var stofnað var utanþingsstjórn við völd þar sem Alþingi hafði ekki tekist að mynda starfhæfa ríkisstjórn. Forsetaembættið hefur því gegnt mikilvægu hlutverki allt frá upphafi og gerir enn. Fyrir okkur sem þjóð eru það ákveðin forréttindi að í embættinu sitji einstaklingur sem nýtur almenns trausts og vinnur að sameiningu en ekki sundrungu.