Á vegum aðila vinnu­markaðarins er nú lagt mat á hvort for­sendur Lífs­kjara­samninganna hafi staðist. Eitt megin­mark­mið þeirra var aukinn kaup­máttur lægstu launa og lækkun vaxta og hvoru tveggja hefur gengið eftir. Deilt er um hvort ríkis­valdið hafi staðið við sitt en ó­lík­legt má telja að kjara­samningum verði sagt upp vegna þess. Á þennan mæli­kvarða hafa for­sendur samninga því staðist í öllum megin­dráttum.

Engu að síður er aug­ljóst að efna­hags­legar for­sendur samninganna eru brostnar. Við gerð þeirra var spáð sam­felldu hag­vaxtar­skeiði út samnings­tímann, að gengi krónunnar héldist stöðugt og verð­bólga lág.

Spyrja má út frá ís­lenskri hag­sögu hversu raun­hæfar þær for­sendur voru en í það minnsta er veru­leikinn sem blasir við ís­lensku at­vinnu­lífi allt annar. Við erum stödd í einu mesta sam­dráttar­skeiði frá upp­hafi mælinga. Gengi krónunnar hefur fallið um fimmtung á einu ári, at­vinnu­leysi stefnir í 10 prósent og verð­bólgan er komin af stað á ný. Ljóst er að veturinn verður harður.

Það sem mestu máli skiptir um for­sendur kjara­samninga er að at­vinnu­lífið ráði við þær launa­hækkanir sem þar er samið um. Ella er hætt við því að verð­bólga eða at­vinnu­leysi aukist, eða hvoru tveggja. Þetta er ekki „grímu­laus hræðslu­á­róður auð­valdsins“ líkt og gjarnan er haldið fram í til­finninga­þrunginni orð­ræðu nýrrar for­ystu ASÍ. Þetta eru ein­faldar efna­hags­legar stað­reyndir. Stað­reyndir sem viður­kenndar eru af verka­lýðs­hreyfingu á öllum Norður­löndunum nema hér. Stað­reyndir sem við höfum í­trekað sann­reynt hér á landi.

Verði ekki brugðist við þessari þróun með endur­skoðun samninga er ljóst að upp­sagnir fyrir­tækja verða meiri en þegar er raunin og hætt er við að verð­bólga verði að sama skapi hærri en ella.

Gott sam­starf aðila vinnu­markaðar hefur skilað miklum árangri í kreppum

Nú­verandi kreppa er sú þriðja sem ís­lenskt efna­hags­líf hefur þurft að glíma við á þrjá­tíu árum. Í hinum tveimur, það er, í upp­hafi tíunda ára­tugar síðustu aldar og í Hruninu, settust aðilar vinnu­markaðarins sam­eigin­lega yfir leiðir til lausna. Þær að­gerðir sem þar var sam­einast um skiluðu ís­lensku sam­fé­lagi hraðar í gegnum efna­hags­kreppuna en ella hefði orðið. Sam­starf þetta skilaði mikil­vægum efna­hags- og sam­fé­lags­um­bótum.

Þannig stuðluðu Þjóðar­sáttar­samningarnir að því að böndum var komið á óða­verð­bólgu undan­genginna ára­tuga. Stór­aukinn verð- og gengis­stöðug­leiki fylgdi í kjöl­farið og við tók nærri tveggja ára­tuga sam­felld kaup­máttar­aukning. Efna­hags­legur árangur Stöðug­leika­sátt­málans er kannski öllu ó­ljósari en hann reyndist þó á­kveðið leiðar­ljós út úr þeirri djúpu kreppu sem skollin var á. Hann tryggði jafn­framt frið og stöðug­leika á vinnu­markaði sem var nauð­syn­legt mót­vægi við það mikla um­rót sem ein­kenndi stjórn­málin á sama tíma.

Sú sam­staða sem náðist á vinnu­markaði við þessar erfiðu kring­um­stæður lagði í til­felli beggja þessara samninga grund­völlinn að efna­hags­legum bata og mikilli kaup­máttar­aukningu. Því miður hefur þó aldrei náðst sam­staða um nauð­syn­legar skipu­lags­breytingar á vinnu­markaði í anda nor­ræna vinnu­markaðslíkansins en það er önnur um­ræða.

Skyn­söm við­brögð munu stytta kreppuna

Við erum að glíma við djúpa og al­var­lega kreppu sem vafa­lítið mun fylgja okkur þar til kóróna­veirufar­aldurinn hefur gengið yfir. Þótt margt sé já­kvætt í ís­lensku efna­hags­lífi til lengri tíma litið er ljóst að það mun taka okkur nokkurn tíma að vinna okkur út úr þessari stöðu. Inni­stæðu­lausar launa­hækkanir ofan í þessa kreppu munu að­eins auka á vandann. Sú orð­ræða sem heyrst hefur frá verka­lýðs­hreyfingunni, að launa­hækkanir nú muni auka kaup­mátt og draga okkur upp úr kreppu, minnir um margt á orð­ræðuna á vinnu­markaði fyrir Þjóðar­sátt þar sem stjórn­lausar víxl­hækkanir launa og verð­lags leiddu til óða­verð­bólgu og efna­hags­legrar stöðnunar.

Inni­stæðu­lausar launa­hækkanir nú munu að­eins auka at­vinnu­leysi og verð­bólgu. Það þarf að leita annarra leiða. Gott sam­starf á vinnu­markaði hefur ekki verið mikil­vægara um ára­bil. Það er á­hyggju­efni að við þessar kring­um­stæður virðist for­ysta verka­lýðs­hreyfingarinnar ætla að stinga höfðinu í sandinn.