Oft er talað um forréttindi hinna og þessara hópa samfélagsins í fjölmiðlum. Konur hér á landi eru taldar njóta forréttinda samanborið við konur í öðrum heimshlutum. Samkynhneigðir eru taldir njóta forréttinda samanborið við aðra hinsegin einstaklinga. Fólk virðist ekki vera gjaldgengt í umræðu dagsins nema að það hefji mál sitt á því að afsaka þá forréttindastöðu sem það er sagt njóta. Það er áhugavert að huga að þessu í tilefni hinsegin daga.

Í þessum yfirlýsingum um forréttindastöðu er ekki verið að gera neitt annað en að gjaldfella sjálfsögð mannréttindi. Mannréttindi sem við eigum öll að njóta óháð kyni, kynhneigð og annarri stöðu í samfélaginu.

Konur hafa í aldir barist fyrir grundvallar-mannréttindum sem þær njóta loks samkvæmt lögum í hinum vestræna heimi. Það tók samkynhneigða á Íslandi áratugabaráttu að ná fullum lagalegum réttindum. Þöggun, kúgun og útskúfun var hlutskipti samkynhneigðra. Það kostaði blóð, svita og tár að tryggja sjálfsögð mannréttindi, eins og að ekki mætti neita fólki um vinnu eða henda því út úr leiguhúsnæði, vegna kynhneigðar. Verst var útskúfun samfélagsins. Margir féllu í valinn fyrir eigin hendi í þessari baráttu.

Það að tala um að samkynhneigðir eða konur njóti forréttinda í íslensku samfélagi er fádæma firra. Konur og samkynhneigðir njóta einfaldlega mannréttinda sem allir borgarar samfélagsins eiga fullan rétt á að njóta.

Mikið verk er enn að vinna til að tryggja jafna félagslega stöðu kvenna og karla, samkynhneigðra og gagnkynhneigðra og grundvallar mannréttindi alls hinsegin fólks. En við megum ekki falla í þá gryfju að telja mannréttindi til forréttinda. Það að njóta grundvallarmannréttinda á að vera sjálfsagður hlutur, en ekki teljast til forréttinda.