Árið 2018 minntust Bretar þess að hundrað ár voru liðin frá því að konur fengu kosningarétt. Af því tilefni sendi rithöfundurinn Kamila Shamsie breskum bókaútgefendum áskorun: Hún lagði til að árið 2018 gæfu þeir aðeins út bækur eftir konur til að minnka kynjahallann innan greinarinnar.

Undirtektirnar voru dræmar. „Útgáfuheimurinn er hvítur og kvenkyns,“ kvað í fyrirsögn dagblaðsins The Guardian. Könnun meðal 34 forlaga og átta bókmenntarita í Bandaríkjunum sýndi að 78 prósent starfsfólks voru hvít á hörund og 79 prósent voru kvenkyns. Rithöfundurinn Marlon James, handhafi Booker-bókmenntaverðlaunanna, sakaði útgefendur um að „selja sig hinni stöðluðu, hvítu konu og langþjáðum, taugatrekktum prósa hennar með úthverfi að sögusviði.“

Konur voru eins og engisprettufaraldur. Þær voru úti um allt. Útgáfubransinn var orðinn eins og bókin The Handmaid’s Tale í bakkgír; þernan var nú kúgarinn.

Gullgerðarlist

Árið 1992 lýsti bandaríski stjórnmálafræðingurinn Francis Fukuyama yfir „endalokum sögunnar“. Fukuyama taldi að hugmyndafræðilegri þróun mannkynsins væri lokið. Við fall Sovétríkjanna hefði hið vestræna lýðræði haft fullnaðarsigur er það bolaði burt óæðri stjórnarháttum, svo sem harðstjórn, einræði og kommúnisma.

Í dag er hlegið að sögulokakenningu Fukuyama. En þótt sagan sýni að það gefist sjaldan vel að spá sögulokum, virðast menn enn stunda slíka gullgerðarlist.

Varaformaður Ungliðahreyfingar Alþýðusambands Íslands, Ástþór Jón Ragnheiðarson, gagnrýndi ASÍ harðlega í vikunni. Var ástæðan stuðningur ASÍ við frumvarp stjórnvalda um breytingar á fæðingarorlofi. Sakaði Ástþór ASÍ um að styðja við forréttindahópa.

Svo virðist sem Ungliðahreyfing ASÍ telji að komið sé að sögulokum í kvennabaráttunni. Látið er í veðri vaka að lög sem jafna eiga atvinnuþátttöku kynjanna séu forréttindaprjál, hjóm úr fortíð sem hefur litla skírskotun til þrauta samtímans. En rétt eins og flestir þeir sem spáð hafa sögulokum, þjáist ungliðahreyfingin af rörsýni.

Þeir sem hæddust að hugmynd rithöfundarins Kamilu Shamsie um „kvennaútgáfuár“ hunsuðu veruleikann. Tölfræðin sýndi að það hallaði víst á konur í útgáfuheiminum. Karlar hrepptu fleiri bókmenntaverðlaun en konur; algengara var að gagnrýni birtist í fjölmiðlum um bók eftir karl en eftir konu. Konur sáu kannski í auknum mæli um handtökin í bókaiðnaðinum, en völdin og virðingin voru enn karlmannsins.

Margaret Atwood, höfundur fyrrnefndrar Sögu þernunnar (The Handmaid’s Tale), sagði einhverju sinni: „Þegar karlmaður skrifar um eitthvað eins og uppvaskið kallast það realismi; þegar kona gerir það teljast það erfðafræðileg takmörk.“

Það er stutt í fyrirlitningu á málefnum kvenna. Hugðarefni þeirra eru höfð að háði, ritstílnum er líkt við úthverfi og kjarabarátta þeirra er talin svo smáborgaraleg af ungliðum stærstu hreyfingar launafólks á Íslandi að ætla mætti að um væri að ræða innihaldslítið tómstundagaman hefðarfrúar. „Jafnrétti er nefnilega mikilvægt en velferð barnsins á ávallt að vera í forgrunni,“ sagði Ástþór eins og uppvakningur frá síðustu öld.

Sambærilegar raddir heyrast víða. Svo hrollvekjandi er umræðan orðin um fæðingarorlofsfrumvarpið að Katrín Jakobsdóttir fann sig knúna til að minna fólk á að missa ekki sjónar á upphaflegum tilgangi fæðingarorlofslaganna. „Ég get fullyrt það að ég væri ekki forsætisráðherra ef framsýnt fólk hefði ekki sett í lög fæðingarorlof sem miðar að því að jafna atvinnuþátttöku kynjanna.“

Endalok sögunnar eru hvergi í sjónmáli. Af orðræðunni að dæma um fæðingarorlof og „erfðafræðileg takmörk“ kvenna, virðist sagan hverfast í hringi. Við erum horfin aftur til ársins 1983 og það er komið að því að stofna Kvennalistann.