Á dögunum fór fram 44. þing ASÍ. Þingið fór fram með óhefðbundnum hætti og var rafrænt. Í fyrsta sinn gafst ASÍ-UNG færi á að vera með erindi í upphafi þings, ásamt forseta ASÍ, félags- og barnamálaráðherra og forseta Alþjóðasamtaka verkalýðsfélaga (ITUC). Það var einróma ákvörðun stjórnar ASÍ-UNG að umfjöllunarefni erindisins yrði frumvarp um breytingar á fæðingarorlofi. Og það skal koma skýrt fram að þetta var ræða, erindi og málflutningur ASÍ-UNG, ekki bara Ástþórs Jóns varaformanns.Þær ásakanir og skoðanir sem Sif Sigmarsdóttir gerir varaformanninum upp í grein sinni í Fréttablaðinu á laugardaginn síðastliðinn eru því ekki bara rangar, heldur gerir greinin líka lítið úr skoðunum þeirra kvenna sem vinna af miklum eldmóð innan ASÍ-UNG og eru hjartanlega sammála ræðu varaformanns. Þá ber greinin enn fremur merki þess að höfundur hefur annað hvort ekki lesið ræðuna eða í það minnsta ekki skilið boðskapinn.

Hefði Sif gefið sér tíma til þess að lesa umrædda ræðu hefði hún meðal annars séð að gagnrýni okkar miðast að því að tökutími fæðingarorlofs er styttur úr 24 mánuðum niður í 18, réttinda einstæðra foreldra er ekki gætt og hefur einstætt foreldri einungis kost á 7 mánaða orlofi. Loks hentar þetta tekjuháu fólki vel sem þolir skertar tekjur í nokkurn tíma, því það blasir við eftir sem áður, að vinnumarkaðurinn okkar er ekki kominn lengra en svo í að uppræta kynbundinn launamun. Hefðbundnar kvennastéttir eru ennþá sárlega illa launaðar í samanburði við karlastéttir og með því skapast ákveðinn ómöguleiki í nýtingu fæðingarorlofs. Það er því langur vegur frá því að ungliðar innan ASÍ telji að komið sé að sögulokum í kvennabaráttunni, eins og Sif heldur fram, og berjast ungliðar innan ASÍ ötullega fyrir jafnrétti, til dæmis með baráttu fyrir því að binda enda á launamun kynjanna.

Að lengja fæðingarorlof með þessum afmarkaða hætti, en stytta um leið tökutíma og snúa upp á hendur einstæðra foreldra er að taka eitt skref áfram en tvö afturábak.

Við eigum ekki að leyfa stjórnmálunum að ráðskast með jafnrétti kynjanna með þessum hætti. Sé raunverulegur vilji stjórnmálanna að jafna hlut kynjanna en ekki einungis spara sér aurana þá myndi tökutími halda sér, einstæðum foreldrum væri tryggður réttur til fulls orlofs, tekið væri tillit til þeirra fjölda fagaðila sem hafa sett spurningamerki við frumvarpið og hagsmunir barnsins væru hafðir að leiðarljósi. Annað er ekkert nema ímyndarstjórnmál og þau gagnast engum nema stjórnmálamönnunum sjálfum.

Gundega Jaunlinina er formaður ASÍ-UNG.

Ástþór Jón Ragnheiðarson er varaformaður ASÍ-UNG.