Mér hefur lengi fundist ég vanmetinn af þjóð minni og bókmenntagagnrýnendum. Bækur mínar seljast ekki nógu vel og mér gengur ekkert að komast í Kiljuna eða til Gísla Marteins. Ég fór því á fund í „samtökum um sjálfsvorkunn“ sem haldinn var í Breiðfirðingabúð á dögunum. Inngönguskilyrðin eru að vorkenna sjálfum sér og álíta að öll vandamál séu öðrum að kenna. Félagsmenn bera ófeimnir misrétti heimsins á torg í fjölmiðlum.

Gunnar á Hlíðarenda var á fundinum enda mikill þolandi. Hann hefur komið fram í ótal hlaðvarpsviðtölum til að segja frá ofbeldi Hallgerðar konu sinnar. Á ögurstundu lánaði hún honum ekki einu sinni hárlokk í bogastrenginn.

Heiðursgestir fundarins voru verkalýðsleiðtogarnir Ragnar Þ. og Vilhjálmur B. Þeir höfðu í fljótræði samið við Samtök atvinnulífsins og þannig misst af öllu fjörinu í kringum yfirstandandi verkföll og verkbann. Þeir báru sig illa og kenndu fagurgala sáttasemjara um. „Það eru svakaleg örlög að vera róttækur verkalýðsforingi og sjá Eflingu stela senunni,“ sagði Ragnar Þ. „Það er dapurlegt að þurfa að sitja hjá í hörðustu vinnudeilum aldarinnar,“ sagði Vilhjálmur hnugginn. „Auðvitað langar okkur til að klæðast gulum vestum og ganga um göturnar með gjallarhorn.“ Forseti ASÍ afneitaði samningnum sem hann var nýbúinn að gera. „Við erum ekki stéttasvikarar og styðjum verkfallsmenn á laun!“ sagði hann baráttuglaður.

Egill afi minn sleit fundinum og kenndi foreldrum sínum um öll sín vandræði. „Þau gerðu mig að ofbeldismanni,“ sagði hann „Mig langaði alltaf í læknisfræði!“