Flokkur fólksins býður fram breiðan lista af frambærilegu fólki í komandi borgarstjórnarkosningum. Meginstefnan er sú að í Reykjavík á enginn að líða skort. Flokkurinn hefur beitt sér af krafti í þágu þeirra sem minnst mega sín: öryrkja, aldraðra og barnafjölskyldna. Mánaðar- og áralangir biðlistar skólabarna eftir allri þjónustu í Reykjavík eru ótækir en nú bíða um 1.900 börn, m.a. eftir skólasálfræðingum og talmeinafræðingum.

Flokkur fólksins vill taka á hinum alvarlega skorti á húsnæði af öllum gerðum í Reykjavík fyrir alla aldurshópa. Húsnæðisskorturinn bitnar sífellt harkalegra á almenningi, sérstaklega efnaminna fólki. Flokkurinn styður ekki þéttingu byggðar í grónum hverfum þar sem innviðir eru sprungnir en hægt væri að byggja í hverfum þar sem möguleiki er á stækkun innviða, t.d. í Grafarvogi, Úlfarsárdal og á Kjalarnesi. Flöskuhálsinn í húsnæðismálum felst í stefnu meirihlutans sem ýtir undir hækkandi verð og aukinn ójöfnuð. Þar að auki eru u.þ.b. 600 manns á biðlista eftir félagslegu húsnæði og á annað hundrað eftir sértæku húsnæði fyrir fatlað fólk. Til þess að eldri borgarar geti búið eins lengi heima og þeir hafa tök á þarf að tryggja fullnægjandi heimaþjónustu.

Mikilvægt er að sýna ráðdeild í rekstri borgarinnar. Margar fjárfestingar eru óhagkvæmar og staðið er í samkeppnisrekstri utan verkahrings borgarinnar. Kostnaðarsöm mistök hafa verið gerð í fjárfrekum framkvæmdum og útboðum. Það er grundvallarkrafa að nota skattfé Reykvíkinga samviskusamlega til að bæta þjónustu í stað þess að bruðla með peninga fólks.