Helmingur mannkyns veit að mesti líkamlegi sársaukinn stafar af því að fá spark í punginn. Hinn helmingurinn veit að barnsfæðing er sársaukafyllri. Ég velti oft fyrir mér hvort foreldrar af öðrum spendýrategundum rífist líka um þetta. Það er líklegast mjótt á mununum hjá flestum – já, nema broddgöltum, hjá þeim leikur enginn vafi.

En talandi um foreldra, þá á ég tvo. Af öllu því merkilega sem foreldrar mínir hafa gert á lífsleið sinni þá þykir mér vænst um minn eigin getnað, sem hefur alla tíð komið sér vel fyrir mig. Ég verð þeim ævinlega þakklátur fyrir þann gjörning.

Sem barn og unglingur dauðskammaðist ég mín þó fyrir foreldra mína. Þau voru svo ógeðslega gömul að ég gat ekki látið sjá mig nálægt þeim. „Eru þetta amma og afi?“ spurðu kennararnir þegar ég mætti á foreldrafundi í Seljaskóla. Mig langaði til að hverfa ofan í jörðina. Bæði voru þau á fertugsaldri þegar þau eignuðust mig – það voru nú öll ósköpin. Í dag er ég töluvert eldri.

Mér þykir ógurlega vænt um foreldra mína þó ég segi þeim það sjaldnast. Ég hef aldrei verið mikið tilfinningagjallarhorn eða knúsari og maður breytist varla úr þessu, orðinn miðaldra og allt það. En í dag er sérstakt tilefni. Mamma mín á afmæli. Af því tilefni vil ég segja þeim báðum hversu þakklátur ég er fyrir stuðning þeirra og leiðsögn í gegnum lífið og hversu mikið ég kann að meta þau. Þá er ég líka löngu hættur að skammast mín fyrir þau – svona oftast nær. Til hamingju með afmælið, elsku mamma.