Hin­segin dagar eru ein­hver besta og glæsi­legasta há­tíð sem haldin er á Ís­landi. Yfir­skrift náði til hjartans en hún var: „Fegurð í frelsi – frelsinu til að vera við sjálf, elska hvern þann sem við viljum.“ Það er ekkert betra en að búa í sam­fé­lagi þar sem fjöl­breytni og jafn­rétti ríkir og fær að blómstra. Gleði­gangan á laugar­daginn, há­punktur há­tíðarinnar, var fjöl­mennari en nokkru sinni. Gleði ljómaði af hverju and­liti og sól skein í heiði.

Katrín Jakobs­dóttir for­sætis­ráð­herra fagnaði deginum inni­lega. En hún sagðist því miður skynja aukna for­dóma og niðrandi um­ræðu í garð hin­segin fólks þrátt fyrir fram­farir í lög­gjöf og reglu­verki. Við þessu yrði að bregðast. Einnig brýndi ráð­herra fyrir fólki að vera alltaf á vaktinni gagn­vart þessari hættu­legu þróun.

En hvernig stendur á því að for­dómar og niðrandi um­mæli um hin­segin fólk og hælis­leit­endur berast frá öðrum aðila innan stjórn­kerfisins sem einnig gegnir einu æðsta em­bætti þjóðarinnar, sjálfum vara­ríkis­sak­sóknara, án þess að nokkuð sé að­hafst? Eins ó­trú­legt og það kanna að hljóma lét Helgi Magnús Gunnars­son vara­ríkis­sak­sóknari þau for­dæma­lausu orð falla í Face­­book-færslu að hin­seg­in hæl­is­­leit­end­ur ljúgi um kyn­hneigð sína til að fá al­þjóð­lega vernd hér á landi. Og klykkti síðan út með því hvort ein­hver skort­ur væri á sam­kyn­hneigðum karl­­mönn­um hér á landi.

„Hvernig stendur á því að for­dómar og niðrandi um­mæli um hin­segin fólk og hælis­leit­endur berast frá öðrum aðila innan stjórn­kerfisins sem einnig gegnir einu æðsta em­bætti þjóðarinnar, sjálfum vara­ríkis­sak­sóknara?“

Baldur Þór­halls­son, prófessor í stjórn­mála­fræði, hefur góðu heilli stigið fram og talað um­búða­laust um þetta mál sem virðist fara lágt í kerfinu. Baldur segir em­bætti ríkis­sak­sóknara rúið öllu trausti. Sú spurning hljóti að vakna hvort stór meiri­hluti lands­manna fái rétt­láta máls­með­ferð hjá em­bættinu.

Ríkis­sak­sóknara­em­bættið er æðsti hand­hafi á­kæru­valds á Ís­landi og fer með á­kæru­vald vegna al­var­legustu brota á á­kvæðum al­mennra hegningar­laga. Em­bættið er eitt af mikil­vægustu og valda­mestu stofnunum sam­fé­lagsins.

Mál vara­­rík­is­sak­­sókn­ara ku vera til skoðunar að sögn Sig­ríðar J. Frið­jóns­dótt­ur rík­is­sak­­sókn­ara en hún segist ekki geta rætt málið nán­ar að svo stöddu. Við vitum reyndar ekki hvaða máls­með­ferð kann að vera í gangi bak við tjöldin. En hvernig stendur á því? Á ekki al­menningur heimtingu á því að vera upp­lýstur um hvort og hvernig við þessu máli verði brugðist? Ríkis­sak­sóknara­em­bættið heyrir undir dóms­mála­ráð­herra. Af hverju tekur ráð­herra ekki af skarið og upp­lýsir um stöðuna?