Þjóðfélagið snýst um faraldurinn sem gengur nú yfir. Fyrst og fremst öflugar sóttvarnaráðstafanir en líka aðgerðir til að standa vörð um störf. Það er mjög jákvætt hvað samheldnin er mikil og allir eru að leggja sitt af mörkum.

Fordæmalausir tímar kalla á fordæmalausa notkun á frösum í daglegu tali. Sumum verður þó fótaskortur á tungunni og tala um fordómalausa tíma og samgöngubann.

Metnaður til að leggja sitt af mörkum getur þó gengið of langt. Skóli sem ég var í fyrir nokkrum árum, og er í öðru landi, þarf t.d. ekki að senda mér u.þ.b. tuttugu tölvupósta um það hvað hann er að gera til að auka hreinlæti á skólalóðinni.

Jákvæðar birtingarmyndir felast í því að fólk hefur lagt til hliðar hina íslensku umræðuhefð sem of oft felst í því að vera ósammála síðasta manni og helst að saka hann um annarlegar hvatir.

Rahm Emanuel, fyrrverandi borgarstjóri Chicago og starfsmannastjóri Hvíta hússins í stjórnartíð Baracks Obama, sagði að við ættum aldrei að láta góða krísu fara til spillis. Í þeim fælist tækifæri til að gera það sem fólk taldi ekki hægt að gera áður.

Hvað ætlum við að gera þegar þessari krísu lýkur? Ætlum við að fara aftur í sama far pólitískra skotgrafa og stéttabaráttu? Hvernig væri að nota þessa krísu til að breyta umræðuhefðinni varanlega og fara að sýna meiri skilning á stöðu og hlutverki hvers annars og vinna saman að því að bæta líf okkar allra? Hvernig væri að viðhalda fordómalausum tímum til langframa?