Hér á landi þurfa byggingar að standast áraun jarðskjálfta og óblíðra veðra og þær þurfa að mæta ítarlegum kröfum sem gerðar eru til þeirra í lögum og aðskiljanlegum reglugerðum.

Reglulega koma upp mál þar sem mygla hefur tekið byggingar slíkum tökum að þær teljast ógna heilsu þeirra sem þangað koma. Listi þeirra bygginga er langur og fjöldi opinberra bygginga áberandi. Velferðarráðuneyti hraktist úr Hafnarhúsinu. Tryggingastofnun flutti af Laugavegi í Kópavog. Landspítalinn er illa leikinn af leka og myglu. Kársnesskóla var ekki talið viðbjargandi og húsið jafnað við jörðu. Að ónefndu Orkuveituhúsinu.

Undanfarin misseri hefur linnulítill fréttaflutningur verið af málefnum barna í Fossvogsskóla. Í upphafi stigu foreldrar fram og kröfðust þess að fram færi rannsókn á því hvort húsnæði skólans væri lekt og sýkt af myglu. Ekki verður með góðu móti sagt að sú rökstudda krafa hafi fengið jákvæðar undirtektir hjá eiganda húsnæðisins, Reykjavíkurborg.

Þar kom að fyrir lá að mygla væri í húsinu og börnunum ekið daglega á annan stað svo þau gætu fengið lögboðna kennslu við aðstæður sem ekki ógnuðu heilsu þeirra. Efnt var til endurbóta sem þegar upp var staðið kostuðu útsvarsgreiðendur í borginni á sjötta hundrað milljóna.

Þá átti allt að vera komið í gott horf og myglunni verið úthýst. Ekki leið á löngu þar til kvartanir foreldra um myglu tóku að berast á ný. Enn voru borgaryfirvöld seinþreytt til viðbragða.

Niðurstaðan varð á sama veg, skólanum lokað og enn voru börnin keyrð fram og til baka. Líklegt er að þeim á sjötta hundrað milljónum sem varið var til hrákasmíðanna við viðgerðina á skólanum hafi verið sóað til einskis.

Það er plagsiður stjórnvalda hér á landi að hlusta ekki nægjanlega á kvartanir og ábendingar fólks. Pukrið í kringum Fossvogsskólamálið dregur það ljóslega fram.

Fréttablaðið komst nýlega yfir tölvupóstsamskipti þar sem aðstoðarmaður borgarstjóra lýsir áhyggjum sínum af því að umræðan um skólann gæti orðið „hysterísk“ í framhaldi af því að fyrirspurnir fjölmiðla um leka í skólanum í janúar 2020 tóku að berast borginni. Í pósti aðstoðarmannsins til sex borgarstarfsmanna var lagt á ráðin um hvernig viðbrögðum skyldi háttað. Þar lýsti hann þeirri von sinni að borginni tækist að „halda lokinu á þessu“. Í frétt sem flutt var hér í blaðinu nýlega skýrði aðstoðarmaðurinn orðaval sitt út. Þær eftiráskýringar eru ekki sérlega trúverðugar.

Þvert á móti blasir við að borgaryfirvöld töldu að kvartanir foreldra um að börn þeirra yrðu að hírast í heilsuspillandi húsnæði væri móðursýki og mikilvægt að bæla niður alla umræðu um ástand skólans.

Varla er um að ræða annað en að ástand skólans og hinna myglubygginganna sé afleiðing áratuga vanrækslu viðhalds. Á því bera borgaryfirvöld í gegnum tíðina ábyrgð. En á viðbragðsleysinu í máli Fossvogsskóla ber borgarstjóri ábyrgð. Það hefur fremur verið hans stíll að forðast óþægileg mál og tefla öðrum fram þegar þau ber á góma.

Svo er einnig nú.