Á einu ári hafa stýrivextir Seðlabankans farið úr 0,75 í 3,75 prósent. Almenn samstaða er innan fjármálakerfisins að vextir muni áfram hækka skarpt og verða í 5-6 prósentum um áramót. Þeir eiga svo að haldast háir í mörg ár.

Svona vaxtahækkanir eru forsendubrestur fyrir heimili og atvinnulíf. Hækki stýrivextir í 5,75 prósent fyrir áramót hefur greiðslubyrði 25 milljóna óverðtryggðs láns aukist um 1,25 milljón á ári, eða um meira en 100 þúsund á mánuði.

Vextir óverðtryggðra lána hækka og vextir verðtryggðra lána lækka um leið. Í vikunni tilkynnti Íslandsbanki um eins prósents hækkun vaxta óverðtryggðra húsnæðislána.

Um leið lækkar bankinn vexti verðtryggðra lána um 0,9 prósent!

Svona skollaleikur kemur engum böndum á neitt í hagkerfinu. Stýrivaxtatæki Seðlabankans er gagnslaust. Raunar verra en gagnslaust. Það er stórskaðlegt.

Bankarnir nota nú tækifærið til að soga viðskiptavini sína á ný yfir í verðtryggðu lánin sem fólk hafnaði á meðan vextir hér á landi voru eitthvað í námunda við það sem tíðkast í öðrum löndum.

Nú skal fólkið aftur rekið á „réttan“ bás.

Hafi ætlun Seðlabankans verið að slá á verðbólgu, sem að stærstum hluta er raunar innflutt og ónæm fyrir stýrivöxtum Seðlabankans, hefðu önnur tæki en vaxtatækið verið nærtækari og skilvirkari.

Hægt hefði verið að setja á tímabundinn skylduséreignarsparnað. Einnig hefði verið hægt að stytta leyfilegan lánstíma á nýjum húsnæðislánum og setja hömlur við umsvifum lögaðila á húsnæðismarkaði.

Seðlabankinn hafði ótal leiðir til að slá á þenslu á fasteignamarkaði. Hann valdi þá ónýtustu. Hún var hins vegar sú eina sem flytur milljarðatugi frá heimilum og atvinnulífi til fjármálakerfisins og fjárfesta.

Seðlabankinn kaus að beita vöxtunum sem vopni gegn fólkinu í landinu.