Á dögunum læddust fregnir af þverrandi trúariðkun þjóðarinnar í fyrirsagnir fjölmiðla. Uppruni þessara frétta er könnun sem markaðsrannsóknafyrirtækið Maskína gerði fyrir hönd Siðmenntar fyrr á árinu. Þótt niðurstöður könnunarinnar sýni fram á að þjóðin sætti sig ekki við núverandi fyrirkomulag, þar sem ein þjóðtrú ríkir og fær stuðning langt umfram hlutdeild sína í lífsskoðunum landans, þá eru auðvitað alltaf einhver í athugasemdakerfinu sem finnst illa vegið að kirkjunni sinni. Einn kommentari komst svo að orði að fólk gæti þá bara urðað ástvini sína úti í garði og er því nokkuð ljóst að viðkomandi er uggandi yfir stöðu útfararinnar ef kirkjunnar nyti ekki við. Persónulega held ég ekki að áhyggjur athugasemdamannsins séu á rökum reistar. Kirkjunni er nú sennilegast borgið í náinni framtíð og þótt hún missi óhjákvæmilega einhvern tíma núverandi aðgang að sameiginlegum sjóðum þjóðarinnar, þá ætti hún ekki að eiga í vandræðum með að sjá þeim, sem það vilja þiggja, fyrir kristilegum jarðsöng, byggðum á aldalangri reynslu sinni, mannauði og samfélagsstöðu. En markmið mitt er ekki að fjalla um kristilegar útfarir, því nógir aðrir eru til þess. Mér þykir hins vegar leiðinlegt að heyra að fólk óttist það að þurfa að dysja sína nánustu undir hekkinu heima, og mér er því ljúft og skylt að tilkynna: Svo er ekki.

Veraldlegur valkostur í boði

Það má ætla að hjá allflestum trú- og lífsskoðunarfélögum á Íslandi sé útfararvalkostur í boði sem byggist á gildagrunni þeirrar trúar eða lífsskoðunar sem um ræðir. Einn slíkur valkostur er veraldleg útför undir merkjum húmanisma eða manngildisstefnu, þar sem manneskjan sjálf og lífshlaup hennar er í fyrirrúmi. Siðmennt hefur staðið fyrir veraldlegum útförum frá árinu 2008 og hefur fjölbreyttan hóp reyndra athafnastjóra á sínum snærum. Með veraldlegri útför fá aðstandendur tækifæri til að kveðja ástvin sinn með þeim hætti sem hinn látni hefur óskað eftir eða aðstandendur komið sér saman um. Áhersla er lögð á lífshlaup hins látna, persónuleika, viðmót og sögu, því að mati húmanista ætti einmitt manneskjan sjálf að vera í forgrunni athafnarinnar. Aðstandendum og athafnarstjóra eru gefnar nokkuð frjálsar hendur um uppbyggingu og umfjöllunarefni, að því undanskildu að ekki er fjallað um nokkurt eftirlíf, nema þá í formi þeirra minninga sem lifa áfram í hugum þeirra sem eftir standa. Sumar fjölskyldur halla sér að hefðbundnu formi í sorginni: kistulagning, hugvekja, minningarorð og hinsta kveðja, með fallegri tónlist inn á milli í anda þeirrar manneskju sem verið er að kveðja. Aðrar kjósa óhefðbundnari leiðir: minningarorð flutt af nánum aðstandanda, samsöngur, táknrænar athafnir, óhefðbundin uppstilling eða annað sem er í anda hinna látnu. Athafnarstjórinn þjónar svo aðstandendum með því að flétta saman hugmyndir þeirra og óskir.

Og svo bara jarðað í bakgarðinum?

Nei, það er nú ekki svo að fólki sé bara holað niður hvar sem er, enda gera landslög ekki ráð fyrir því. Húmanistar, trúleysingjar, efahyggjufólk, fólk utan trúfélaga og trúað fólk sem af einhverjum ástæðum óskar eftir veraldlegri athöfn, er jarðað á nokkurn veginn sama hátt og aðrir hópar samfélagsins. Oftast í kirkjugörðum, eða þá að ösku er dreift með sérstöku leyfi yfirvalda. Í sumum kirkjugörðum er hafður óvígður reitur, en fyrir marga skiptir ekki máli hvort fulltrúar einhverra trúfélaga hafa lagt blessun sína yfir svæðið, og kjósa sér því hvílustað nálægt fjölskyldu sinni, eða á öðrum fallegum stað í grafreitnum. Annað mál er þó með athöfnina sjálfa, því að yfirvöld hafa ekki staðið sig við að bjóða upp á trúarlega hlutlaus athafnarými. Húsnæði Þjóðkirkjunnar stendur aðeins meðlimum Þjóðkirkjunnar til boða, samkvæmt samþykktum um innri málefni þjóðkirkjunnar, en kirkjur virðist þó mega leigja út sem tónleikastað eða til annarra listrænna gjörninga. Það athafnarými sem reist er fyrir kirkjugarðsgjöld almennings, eins og til að mynda kapellan og kirkjan í Fossvoginum í Reykjavík og kapellan á Akureyri, eru öllum aðgengileg, óháð trúfélagsaðild. Aðstandendur geta nýtt sér þessi rými, enda fallegt húsnæði sem ekki þarf að greiða fyrir og er sérhannað til útfara og annarra athafna. Sumum þykir þó óþægilegt að ekki sé hægt að skipta út trúarlegum táknum í Fossvoginum og kjósa frekar rými sem eru algjörlega trúarlega hlutlaus. Fallegir salir á borð við Iðnó og Hannesarholt hafa höfðað til margra, auk félagsheimila um allt land eða þeirra salarkynna sem höfðu sérstaka merkingu í huga hins látna.

Það er því ljóst að ekki þarf að óttast útfaraóreiðu þó breytingar verði á Þjóðkirkjuskipan eða samskiptum ríkis við trú- og lífsskoðunarfélög. Hver og einn getur valið það sem hentar og úrvalið er þó nokkuð. Það er víst að eitt hentar ekki öllum og þegar öllu er á botninn hvolft er mikilvægt að hafa val.