Ís­lendingar hafa dáðst að götu­menningu á torgum og iðandi mann­lífi í er­lendum stór­borgum. Fólk situr á úti­kaffi­húsum eða bekkjum og nýtur sólar og veður­blíðu. Menn hafa lengi reynt að skapa slíka stemningu í Reykja­vík. Lækjar­torg var stundum fjöl­sótt en aðal­lega vegna þess að strætis­vagnar borgarinnar höfðu þar við­dvöl. Aldrei hefur tekist að koma upp eigin­legri kaffi­húsa­stemningu á ís­lenskum torgum. Veðrið ræður mestu um. Stóran hluta ársins ganga lægðir yfir landið með til­heyrandi suð­austan­átt og rigningu. Fólk endist ekki til lengdar að sitja úti á torgi með kaffi­bolla í hrag­landa.

Það er synd að skipu­lags­fræðingar borgarinnar hafi ekki áttað sig á þessu. Verið er að byggja fjöl­mörg torg úti um alla borg þar sem reiknað er með fjöl­skrúðugu mann­lífi. Nú á að byggja nýtt torg við Hlemm sem bætist við Hjarta­torgið, Hörpu­torgið, Kára­torgið, Vita­torgið og Óðin­s­torgið sem öll eru í póst­númeri 101. Kaffi­þyrstir Reyk­víkingar og ferða­menn hafa næg tæki­færi til að njóta úti­markaða, tón­listar­manna og iðandi mann­lífs. Einka­bílnum er út­hýst enda eiga gestir að ganga eða hjóla létt­klæddir milli torga.

Verst er að öll þessi torg eru að öllu jöfnu auð og tóm. Hvergi hefur tekist að skapa ein­hverja úti­stemningu eins og skipu­leggj­endur borgarinnar þekkja frá út­löndum. Ís­lenska veðr­áttan lætur ekki að sér hæða. Nú þyrfti borgar­ráð að á­lykta að veður­far verði að breytast á Ís­landi tafar­laust svo að hægt sé að spranga um nýju torgin á stutt­buxum með bros á vör. Það er ó­þolandi að þessi dutt­lunga­fulla veðr­átta skuli gera há­leita skipu­lagningu að engu.