Á fimmtudaginn kemur, þann 21. júlí, eru liðin tíu ár frá því að öfgamaðurinn Anders Behring Breivik myrti með köldu blóði sjötíu og sjö manns í miðbæ Oslóar og á sumardvalarstað ungliðahreyfingar norska Verkamannaflokksins á eyjunni Útey. Á eyjunni skaut hann til bana sextíu og níu ungmenni sem þar skemmtu sér áhyggjulaus og særði hundrað fimmtíu og átta til viðbótar.

Í viðtali í helgarblaði Fréttablaðsins um liðna helgi var rætt við Aud Lise Norheim, sendiherra Noregs á Íslandi, um tímamótin og hvernig þjóðin hafi unnið úr þeim gríðarlegu sárum sem hryðjuverkin ollu.

Jens Stoltenberg, þáverandi formaður Verkamannaflokksins og forsætisráðherra landsins, lagði í kjölfar voðaverkanna mikla áherslu á að hatrið fengi ekki að sigra og segir Aud Lise ástina hafa verið allsráðandi dagana og vikurnar eftir árásirnar. En svo hafi tónninn því miður breyst og jafnvel mátt heyra ásakanir um að Verkamannaflokkurinn, og sérlega ungliðahreyfingin, væri að nota harmleikinn sér til pólitísks framdráttar, til að afla sér stuðnings.

Hún segir að nú, að áratugi liðnum, eigi sér stað nauðsynlegt uppgjör, samtal sem fyrst nú sé hægt að eiga. Norðmenn tóku aðdáunarlega vel á þessum harmleik og gáfu Breivik enga rödd eða pláss og mættu hatrinu með ást. En nú tíu árum síðar getum við kannski leyft okkur að reyna að skilja þennan hryllilega glæp.

Breivik er hægri kristinn öfgamaður og það var hatur hans á fjölmenningu sem rak hann áfram. Fjölmenning!? Við, rétt eins og aðrir íbúar heimsins, búum við fjölmenningu og hún er enginn valkostur. Hver væri annars sá valkostur? Fámenning, einmenning eða ómenning? Og hvernig getur það gerst að einhver komist að þeirri niðurstöðu að með því að fremja jafnhryllilegan glæp og morðin í Útey voru, færist samfélag hans nær því undarlega markmiði að færast fjær fjölmenningunni?

Við verðum að horfast í augu við að glæpamaðurinn Breivik spratt úr samfélagi eins og okkar. Við verðum að horfast í augu við það að hér í okkar samfélagi þrífst líka hatur í garð þeirra sem ekki falla inn í þrönga skilgreiningu sumra á einsleitu samfélagi. Öfgarnar þrífast hér líka. Yfirgnæfandi meirihluti Íslendinga vill þó opið og frjálst samfélag. Og flestum okkar finnst sjálfsagt að okkur sé tekið vel hvert sem við ferðumst eða flytjum. Þessi lífsgæði og þetta frelsi sem við teljum sjálfsögð verða ekki fengin nema með opnu samfélagi. Frelsið er ekki einhliða. Fjölmenningin er þess vegna bein afleiðing af þessu frelsi.

Þó svo að það hafi klárlega verið rétt afstaða að veita hryðjuverkamanninum og fjöldamorðingjanum sem minnsta mögulega athygli þá megum við ekki gleyma hvaðan hann kom og hvaða hugmyndir drifu hann áfram. Við verðum að halda samtalinu lifandi og við verðum að halda augunum opnum og gæta þess að slíkar hugmyndir fái sem allra minnsta næringu.

Fögnum fjölmenningu!