Úlpufyrirtæki auglýsti í vikunni að það væri að koma vetur. Ég veit að jólaauglýsingar fara að koma, strax og skólaupphafs-, námskeiða- og hreyfingarauglýsingum lýkur. En þarna vantar samt heila árstíð inn á milli. Haustið er ekki byrjað.

Ég hef ekki haft mikinn tíma til að líta upp úr vinnu að undanförnu. En ég veit að haustið er ekki komið, því ég er ekki farin að taka upp kartöflur. Ég er ekki einu sinni búin að fara í berjamó. Rifsberin mín eru rétt að byrja að roðna. Það er ekki gulnað laufblað að sjá. Og það hafa borist fréttir af rétt tæplega 30°C á Norður- og Austurlandi.

Fréttir af vetri eru því stórlega ýktar og ætti úlpufyrirtækið að skammast sín fyrir flumbruganginn. Ég býst við heilsíðuauglýsingu með afsökunarbeiðni til þjóðarinnar strax eftir helgi.

Ég rekst ótrúlega oft á fólk sem trúir ekki á íslenskt vor eða haust. Heldur því fram fullum fetum að á Íslandi séu bara tvær árstíðir. Að halda annað sé að lifa í blekkingu. Á móti segi ég að þetta er eins og að trúa ekki á frumefni, atóm eða súrefni. Vor og haust koma. Hvort sem fólk trúir á þessar árstíðir eða ekki.

Haustið verður litfagurt og tært. Með smá rigningu og roki inn á milli. Vorið kemur svo og dreifir grænum lit yfir óhreinindi sem safnast saman undir snjó vetrarins. Eftir „síðvetrar/snemmvorið“ þegar allt er ljótt. Hvort um sig eru haustið og vorið ekki langar árstíðir. En við reynum að vera opin og fordómalaus gagnvart þeim sem minni eru. Og leyfum öllum að vera með. Líka litlu árstíðunum.