Viljið þið flugvöll eða byggð í Vatnsmýrinni? Þessa spurningu fengu oddvitar flokkanna sem buðu fram í borginni í vor rétt fyrir kosningar, á fundi sem samtök um bíllausan lífsstíl héldu. Allir nema einn svöruðu að þeir vildu frekar byggð en flugvöll. Sumir með fyrirvörum reyndar. Oddviti Miðflokksins, sá eini sem vildi frekar flugvöll en byggð, var frekar langt frá því að ná kjöri.

Niðurstaðan kom ekki á óvart. Það er nokkuð breið pólitísk samstaða í borginni um byggð í Vatnsmýrinni í stað flugvallar. Það sýna meðal annars úrslit fernra síðustu borgarstjórnarkosninga. Flokkar sem hafa lagst gegn því að í Vatnsmýrinni rísi byggð í stað flugvallar hafa ekki náð að mynda meirihluta.

Flugvöllurinn í Vatnsmýri hefur alla tíð verið umdeildur. Bjarni Benediktsson, borgarstjóri Sjálfstæðisflokksins, mótmælti harðlega árið 1940 þegar Bretar settu niður herflugvöll og helguðu sér 270 hektara svæði nánast í miðri borg. Gunnar Thoroddsen, borgarstjóri sama flokks, sagði á fundi í nóvember 1959 að bæjarstjórnin viðurkenndi ekki norður/suður flugbrautirnar á vellinum. Ekki kæmi til greina að „skipulag húsa í bænum ákvörðuðust af þeim“. Á fundinum var rætt um fyrirhugað ráðhús við Tjörnina. Á sama fundi stakk Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur upp á því að leggja Reykjavíkurflugvöll niður og fá þannig svæði í Vatnsmýrinni fyrir nýjan miðbæ og reisa ráðhús við Öskjuhlíðina. Geir Hallgrímsson talaði í aðdraganda Aðalskipulags Reykjavíkur 1962–1983 mjög ákveðið um að flugvöllurinn færi í framtíðinni. Það var fyrir tæpum 60 árum!

Eftir hverju erum við að bíða? Aðalskipulag Reykjavíkur 2010–2030 gerir ráð fyrir að flugvöllurinn fari. Þar segir að í Vatnsmýrinni felist einstakt tækifæri til að gera Reykjavík að betri borg. Með uppbyggingu þéttrar, blandaðrar byggðar verði Reykjavík sjálfbærari, hagkvæmari, fegurri. Grundvöllur verði lagður að nýjum vaxtarpól á sviði háskóla, rannsókna, hátækni. Hljóðvist í vesturhluta borgarinnar batni verulega. Hættan af flugi lágt yfir húsum borgarinnar hverfi. Gert er ráð fyrir 6.900 íbúðum og stórum almenningsgarði sem nær frá Hljómskálagarði niður í Skerjafjörð.

Höfundur er borgarfulltrúi Samfylkingar.