Í innanlandsflugvallakerfinu gegnir Reykjavíkurflugvöllur lykilhlutverki, því hann tryggir gott aðgengi íbúa á landsbyggðinni að höfuðborginni og öfugt. Einnig er öryggishlutverk hans varðandi sjúkraflutninga óumdeilt.

Árið 2019 gerðu samgönguráðherra og borgarstjóri samkomulag sem kveður á um að Reykjavíkurflugvöllur verði á sínum stað til ársins 2032. Í samkomulaginu er kveðið á um að rekstraröryggi á Reykjavíkurflugvelli verði tryggt, meðal annars með eðlilegu viðhaldi og endurnýjun mannvirkja, og miðað við að völlurinn geti áfram þjónað innanlandsflugi á fullnægjandi hátt þar til nýr flugvöllur sé tilbúinn.

Nú hyllir undir að framkvæmdir í nýja Skerjafirði hefjist. Rétt er að geta þess í þessu sambandi að Reykjavíkurborg hefur átt samtal við Isavia Innanlandsflugvelli um verkefnið. Á þeim fundum og í þeim samskiptum höfum við gert borgaryfirvöldum grein fyrir áhyggjum okkar um möguleg áhrif þessara fyrirhuguðu framkvæmda á rekstur flugvallarins og þá sérstaklega nýtingu hans.

Starfsemi stórvirkra vinnuvéla á framkvæmdasvæðinu og þungaflutningar á milli Einarsness og flugbrautar 13 mun hafa áhrif á öryggi loftfara, til dæmis með aukinni hættu á foki jarðefna og smáhluta inn á flugbraut. Notkun byggingarkrana nærri öryggissvæði flugvallarins mun að auki hafa takmarkandi áhrif á reksturinn.

Fyrirhugað er að byggja hljóðmön á milli nýja hverfisins og flugbrautar til að bæta hljóðvist þar – notaður verður jarðvegur af flugvallarsvæðinu í mönina. En hafa verður í huga að háreist mön getur haft áhrif á vindafar á flugbrautarsvæðinu, það er, framkallað logn eða óvænt vindafar. Jafnframt getur yfirborðsvatn af breyttu landslagi kallað fram nýjar brautaraðstæður, til að mynda ísingu á braut.

Við getum af þessum sökum ekki setið hjá á meðan verið er að undirbúa framkvæmdir í næsta nágrenni við Reykjavíkurflugvöll, sem valdið geta því að ekki verði hægt að þjóna innanlandsflugi með sama hætti og gert var við undirritun samkomulagsins. Við hjá Isavia Innanlandsflugvöllum, sem starfrækjum Reykjavíkurflugvöll á grundvelli þjónustusamnings við íslenska ríkið, finnum okkur knúin til að standa vörð um þá þjónustu sem okkur er falið að veita. Því er mikilvægt að við bendum á þau áhrif sem geta orðið af fyrirhuguðum framkvæmdum þannig að allir séu vel upplýstir um áhrif þeirra.