Fyrir nokkru kom norskur byggingameistari í heimsókn til Íslands. Fór hann í ökuferð um höfuð­borgarsvæðið til að kynna sér húsagerð og skipulag. Eftir nokkra stund varð Norð­manninum að orði: Hvernig er það, á eftir að setja þak á flestar nýjar byggingar hér?

Íslenski samferðamaðurinn skýrði þá út fyrir honum að svo væri nú ekki, heldur væru flestar nýbygg­ingar hér með flötu þaki. „Eruð þið ruglaðir?“ varð hinum reynda byggingameistara frá Noregi að orði.

Margt hefur verið rætt og ritað um flötu þökin í íslenskri veðráttu og hef ég áður tjáð mig um þau. Ýmsir reyndir byggingamenn hafa haldið því fram að stór hluti flatra þaka muni fyrr eða síðar leka og að mygla sé miklu algengari í húsum með flötu þaki en þeim sem vatn og snjór getur runnið af, eins og reyndist vel hér á landi í meira en 1.000 ár áður en flatþekjan komst í tísku.

Hér verður engu bætt við það, enda flest áður sagt og sannað um þá stefnu. Hins vegar eru önnur atriði sem ástæða er til að gefa gaum þegar borin eru saman flöt steypt þök og hallandi timburþök, með pappa og málmklæðningu efst.

Meira en 100 tonna farg

Hér á eftir verður tekið dæmi um 200 fermetra steinsteypt hús. Ef þakið er steypt 20 cm þykk plata, er hún um 100 tonn að þyngd. Síðan er þykku pappalagi bætt ofan á plötuna og þar ofan á malarlagi, sem getur vegið meira en 20 tonn.

Ekki er ólíklegt að þarna sé um að minnsta kosti 120 tonna heildarmassa að ræða, sem gegnir því hlutverki að verja húsið fyrir vatni, snjó og vindum. Væri þetta þak hins vegar úr hefðbundnu timbri með pappa og álsinki efst, vegur það þak minna en 10 tonn. Þótt hús hér á landi séu byggð eftir stöðlum sem þola eiga stærstu jarðskjálfta og mikinn snjó­massa, er slíku ekki til að dreifa alls staðar.

Bent hefur verið á að í fátækari löndum heims sé það oft flatt þakið sem veldur mestu manntjóni þegar hlaðnir veggir gefa sig, til dæmis í jarðskjálftum. Léttari þök séu því sannarlega æskileg við þær aðstæður.

Óþörf losun á koltvísýringi

Gera má ráð fyrir að um 15 tonn af sementi fari í ofannefnt íslenskt þak og að framleiðsla á því magni af sementi losi álíka magn af CO₂ út í andrúmsloftið. Þetta er þó breytilegt eftir því hvar framleiðslan fer fram, en hafa verður í huga að sementsframleiðsla er talin valda 8-10% af heildarlosun í heiminum á koltvísýringi.

Á Íslandi er árleg notkun á sementi yfir 170 þús. tonn, sem nálgast það að vera um hálft tonn á mann. Auðvitað fer ekki nema lítill hluti þess magns í flöt þök. En í ljósi þess að hefðbundin, hallandi timburþök hafa afar lítið kolefnisspor, er ljóst að breyting á þakgerð hér á landi getur verið allnokkuð jákvætt innlegg í kolefnis­bókhald þjóðarinnar.

Steinsteypa er, og verður áfram, mikilvægasta byggingarefnið hér á landi en það er full ástæða til þess að skoða gaumgæfilega hvernig draga má úr notkun hennar, meðal annars í gerð húsþaka.

Lokaorð

Ég hef á opinberum vettvangi haldið því fram að veðurfarslega séu flöt þök ekki heppileg á Íslandi og svipað er örugglega uppi á teningnum í Noregi. Þar er flatneskjustíllinn í þakgerð mun minna notaður en hér á landi. Þar sem veðurfar á vesturströnd Noregs er að ýmsu leyti líkt og á suðvestanverðu Íslandi, þótt hér sé kaldara, er fróðlegt að bera saman byggingarstílinn í nokkrum borgum þar og á Reykjavíkursvæðinu.

Í borgum eins og Stavanger, Björgvin, Álasundi og Þrándheimi, er aðeins lítill hluti húsa með flötu þaki, öfugt við það sem er hér í höfuðborginni og nálægum sveitarfélögum, ekki síst á þeim svæðum sem byggð hafa verið síðustu áratugina.

Að lokum er það svo skoðun mín að mun fallegra, hlýlegra og á allan hátt manneskjulegra sé að búa í hverfum þar sem hús eru með hefðbundnum þökum, sem bæði dempa vind og renna af sér úrkomu, en þar sem hús eru gámalaga með uppmagnaða vindstrengi á hliðum og safnþrær á þökum. Það er hins vegar önnur kolefnissaga.