Stjórnmálastéttin lætur sér fátt fyrir brjósti brenna þegar kemur að því að skara eld að eigin köku.

Viðskiptablaðið birti í vikunni úttekt á ríkisstuðningi við stjórnmálaflokka frá árinu 2010 til 2022. Fram kemur að þeir hafa fengið sjö milljarða úr ríkissjóði á þessu tímabili á verðlagi dagsins í dag.

Á fyrsta ári sitjandi ríkisstjórnar voru framlög til flokkanna meira en tvöfölduð (hækkuð um 127 prósent) og síðan hafa þeir fengið næstum fjóra milljarða frá skattgreiðendum.

Þrátt fyrir þetta örlæti þingmanna í garð flokkanna sinna hefur Alþingi ekki tekist að finna fjármagn til að stytta biðlista í heilbrigðiskerfinu.

Tannréttingar, sem eru gjaldfrjálsar í þeim löndum sem við kjósum að bera okkur saman við hvað velferð varðar, eru sligandi kostnaðarliður fyrir barnafjölskyldur á Íslandi. Hvað skyldi kosta að setja tannréttingar inn í hið almenna sjúkratryggingakerfi?

Kannski svipað og rennur til stjórnmálaflokkanna í styrk frá skattgreiðendum? Kannski meira, hver veit? Ríkisstjórnin sóaði tveimur til þremur milljörðum í að fjölga ráðuneytum við síðustu stjórnarmyndun. Þá vantaði ekki peningana. Peningar eru ekkert vandamál þegar fjármagna þarf ráðherrastól og tilbehör fyrir flokksgæðinga.

Á Íslandi búa álíka margir og í Coventry í Englandi. Dettur einhverjum í hug að íbúar Coventry séu skikkaðir til að borga tólf stjórnendum meira en tvær milljónir á mánuði, setja lúxusbíl með bílstjóra undir hvern þeirra og tvo prívat aðstoðarmenn með meira en milljón á mánuði í laun, fyrir að stjórna borginni?

Á meðan Ísland hefur ekki ráð á að borga tannréttingar barna á Íslandi hefur Ísland ekki efni á flottræfilshætti ráðamanna og sjálftöku þeirra. Ekki verður annað séð en að full samstaða sé milli stjórnmálaflokkanna um þá mannvonsku og spillingu sem felst í því að stjórnmálastéttin hugsar um sig og bara sig.